Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[11:23]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Kyrrstaða hefur ríkt yfir raforkumálum þjóðarinnar undanfarin ár. Við höfum m.a. séð hana í tengslum við rammaáætlun. Við höfum einnig séð hana í tengslum við uppbyggingu flutningskerfis raforku síðastliðin 15–20 ár. Það er háspennta kerfið sem við þekkjum almennt best sem byggðalínuna. Það horfir nú til betri vegar og uppbygging hafin, sem mun a.m.k. taka áratug ef vel gengur. Það er jú einmitt byggðalínan sem er í lykilhlutverki í því hvernig við hámörkum nýtingu okkar grænu raforku sem allra best, samspil raforku sem framleidd er með jarðvarma, vatnsorku og vindorku þegar við tökumst á við krefjandi verkefni framtíðar.

Ég fagna því sérstaklega að í nefndaráliti okkar í meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar sé lagt til að vindorkukosturinn Búrfellslundur sé settur í nýtingarflokk. Það er síðan mikilvægt í allri umræðu um orkumál okkar Íslendinga að þau endurspegli jafnvægi milli efnahagslegra, samfélagslegra og umhverfislegra þátta til lengri tíma litið, séu byggð á sjálfbærnihugtakinu.

Síðan grunar mig nú að við förum að huga að því í sambandi við sjálfbærnihugtakið að ræða loftslagsmálin með einhverjum skýrari hætti. Það er ákveðinn munur á umhverfis- og loftslagsmálum.