Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[11:27]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Það er ekkert ábyrgt fyrir náttúruvernd að færa náttúruperlur úr verndarflokki yfir í biðflokk á pólitískum forsendum, ekki á faglegum forsendum. Það er ekki til þess fallið að skapa sátt að vinna þannig. Niðurstaðan í þessari rammaáætlun er afleiðing þeirra hrossakaupa sem eiga sér stað þegar að flokkar eins og Vinstri grænir sitja í ríkisstjórn með virkjunarflokki. Það er það sem við horfum á í dag og það er ekki til þess fallið að skapa sátt. Við þurfum að standa vörð um náttúruna. Að standa vörð um náttúruna er að standa vörð um framtíðarkynslóðir. Það er ótrúlega sorglegt að sjá þetta eiga sér stað. Þetta hefði ég talið að væri okkar aðal „mandat“ hérna, að standa vörð um náttúru Íslands og passa upp á að framtíðarkynslóðir taki við þessu landi (Forseti hringir.) á hátt sem við getum verið stolt af. Við erum með þetta allt í láni, forseti, (Forseti hringir.) allt saman, allt landið. Við erum með þetta í láni. (Forseti hringir.) Við eigum þetta ekki og við getum ekki farið í óafturkræfar framkvæmdir á þessu landi. (Forseti hringir.) Það er ekki í boði, forseti.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir á að ræðutími þegar þingmenn taka til máls um atkvæðagreiðslu er ein mínúta og biður þingmenn að virða það.)