Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[11:43]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Þeir sem láta sig varða að rammaáætlun lifi gera málamiðlun. Þetta voru orð hæstv. fjármálaráðherra og virðist vera lína ráðherra úr öllum flokkum í ríkisstjórninni. Gott og vel. Vandinn hér er að málamiðlunin á sér ekki stað á forsendum faglegra raka. Hún á sér stað á forsendum pólitíkurinnar. Það er bara augljóst. Þrír flokkar hafa komið sér saman um hverju þeir ætla að halda inni í verndarflokki og hvað fari í biðflokk og það hafa allir kannski haft þrjá möguleika: Ég ætla að fá þetta inn og þetta út og þetta inn. Þannig varð þessi niðurstaða. Það er augljóst. Hún er ekki á faglegum rökum byggð. Það er í hnotskurn allt það sem er að stjórnmálum. Það er í hnotskurn það sem er meinið við þessa ríkisstjórn. Jú, jú. Gott og vel, það er mikilvægt að ramminn nái fram að ganga en ekki rammi sem kemur frá þremur ólíkum flokkum með gjörsamlega ólíka sýn á framtíðina og virkjunaráætlanir og náttúru Íslands. (Forseti hringir.) Þá er þetta alltaf einhver málamiðlun sem er bara pólitísk hrossakaup. (Forseti hringir.) Það er sorglegt því að náttúran þarf að líða fyrir það. Þjóðin þarf að líða fyrir það (Forseti hringir.) og það er þess vegna sem ég stend hér og tala um framtíðarkynslóðir því að ég get ekki séð að þær hafi verið hafðar í huga þegar þessi ákvörðun var tekin.