152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[11:49]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Já, það er stór dagur hér í dag þegar við göngum til atkvæðagreiðslu um rammaáætlun sem hefur í rauninni legið í frosti frá árinu 2013. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að það sé vilji til þess að afgreiða rammaáætlun 3 og það sé vilji til þess að stækka biðflokkinn í rammaáætlun. Tillögurnar sem hér liggja frammi fyrir okkur í dag frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar felast einmitt í því að stækka biðflokkinn. Það er verið að færa kosti úr nýtingu í bið og kosti úr vernd í bið. Eini kosturinn sem settur er í nýtingu og færður úr biðflokki er Búrfellslundur, vindorkukostur, sem er afar mikilvægt og gott og jákvætt skref fyrir okkur, fyrir ríkisstjórnina og okkur sem þjóð til að uppfylla þær skuldbindingar sem við höfum gert varðandi orkuskipti, sem mér skilst að allir hafi verið sammála um þvert á flokka hér á síðasta kjörtímabili. Og eins kolefnishlutleysi árið 2040 þar sem við ætlum að vera jarðefniseldsneytislaus. Við þurfum hreyfingu í þessum málum til að standast skuldbindingar okkar.