Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[12:17]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé mikilvægt að byrja á því að taka fram hér að Héraðsvötnin eru auðvitað í dag í núgildandi áætlun í biðflokki og hafa verið síðan 2013, þannig að í reynd er ekki um breytingu þar að ræða. En að kjarna málsins. Þegar við tölum um Héraðsvötnin, þegar við tölum um Þjórsárverin þá er engum blöðum um það að fletta að þar er um mikil náttúruverðmæti að ræða og þau náttúruverðmæti eru ekki að fara neitt. Þau náttúruverðmæti munu verða þar áfram. Það kemur síðan til kasta verkefnisstjórnarinnar að meta þau og gera tillögu að því hvernig þau muni flokkast. Það sem hér er verið að gera er að það er einfaldlega verið að stækka biðflokkinn, það er verið að fresta ákvörðun rétt eins og það er verið að fresta ákvörðun um að taka Skrokköldu og neðri hluta Þjórsár til ákvörðunar núna.

Ég verð að lokum að hafna því að hér sé verið að drekkja Þjórsárverum. Þvílíkur pólitískur útúrsnúningur af hinni verstu gerð, lýðskrum sem ég á erfitt með að sitja undir hér. Hér er biðleikur í náttúruvernd. [Frammíköll í þingsal.]

(Forseti (BÁ): Þingmaðurinn segir?)

Nei.