Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[11:47]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegi forseti. Það er ekki léttvægt að gera þetta en það er nauðsynlegt. Þetta mál er miklu stærra en persónur og leikendur í þessum sal. Við sitjum á Alþingi. Alþingi setur lög. Til að Alþingi geti sett lög þarf það iðulega að kalla eftir upplýsingum og gögnum, það liggur í hlutarins eðli. Öllu jafna er það ekkert vandamál. Alþingi kallar eftir gögnum og upplýsingum, ráðuneyti og stofnanir veita upplýsingar og gögn. Á hverjum degi gerist þetta. Í þingskapalögum er síðan ákvæði sem skyldar stjórnvöld, stofnun eða ráðuneyti til að láta Alþingi fá gögn innan sjö daga ef þess er krafist. Það er hér sem lögbrotið liggur, ekki bara að okkar mati heldur líka að mati lögfræðinga Alþingis.

Þetta snýst nefnilega ekkert um ríkisborgararétt, þetta snýst ekki um útlendinga og þetta snýst ekki um Útlendingastofnun. Þetta snýst nákvæmlega um þetta: Hvar liggja mörk ráðherra þegar hann beitir valdi sínu? Þegar ráðherra kemur í veg fyrir að þingið fái gögn innan sjö daga, eftir að þingið hefur krafist þess, þá er ráðherra, framkvæmdarvaldið, að koma í veg fyrir að Alþingi, löggjafarvaldið, geti sinnt hlutverki sínu, hlutverki sem bundið er í stjórnarskrá. Það er enginn ágreiningur um þetta. Allsherjar- og menntamálanefnd, öll nefndin, líka stjórnarliðar, krafðist þessa og ítrekaði fjórum sinnum, með vísan í þingskapaákvæðið, í desember 2021, og þrisvar á síðasta ári, og í öllum tilvikum gaf nefndin lengri frest en þingskapalögin kveða á um. Í öllum tilvikum var þessari ósk, þessari lögbundnu ósk, hafnað af ráðherra. Honum fannst sjálfum að þingið þyrfti ekki að fá þessi gögn eins og þingið bað um. Honum fannst það ofur einfaldlega. Það var bara það sem honum fannst. Hann sagði orðrétt í ræðustól: Það var mín ákvörðun að vinna þetta með þessum hætti og ég tek ábyrgð á því. Hann játar hér í ræðustól lögbrot.

Í öllum tilvikum endaði þetta með því að hafa bein áhrif á vinnu Alþingis. Þetta breytti því hvernig lög frá Alþingi litu út í endanlegri mynd, ekki einu sinni, ekki tvisvar heldur oftar. Lög um veitingu ríkisborgararéttar eru nefnilega einmitt það, lög, landslög, og við þurfum að hlíta öllum reglum þegar við setjum lög. Ef við erum ósátt við lögin þá breytum við þeim, við brjótum þau ekki. Þetta erum við búin að segja margoft í dag. Við breytum lögunum, við brjótum þau ekki. Skiptir þetta litlu máli, er þetta léttvægt? Nei, þetta er stórmál. Ráðherra á ekki og má ekki hindra þingið þegar þingið er að sinna störfum sínum. Hann má ekki og á ekki að koma í veg fyrir það að Alþingi Íslendinga fái upplýsingar sem hafa bein áhrif á þau lög sem það sama Alþingi setur.

Við skulum hugsa þetta í aðeins stærra samhengi. Þetta á nefnilega við um öll önnur lög líka, ekki bara lög um ríkisborgararétt. Þetta er stórhættulegt fordæmi. Ef atvinnuveganefnd kallar eftir gögnum vegna laga um stjórn fiskveiða með vísan í þingsköp má þá hæstv. matvælaráðherra neita þinginu um gögn af því að hæstv. ráðherra finnst að þingið sé á rangri leið? Ráðherrann er ósammála þinginu, má hann þá segja nei? Hæstv. matvælaráðherra er að taka undir það sjónarmið ef hann greiðir atkvæði með þeim hætti sem allt stefnir í. Ofur einfaldlega: Hæstv. ráðherra er að búa til fordæmi fyrir sjálfan sig. Hæstv. fjármálaráðherra, má hann neita þinginu um gögn, t.d. við fjárlagagerð, ef fjárlaganefnd biður um gögn? Nei, auðvitað ekki. Myndi hæstv. fjármálaráðherra einhvern tímann standa hér í ræðustól og segja: Ég er ósammála fjárlaganefnd um það að fjárlaganefnd eigi að fá gögnin og ég hef fyrirskipað stofnunum að láta ekki þingið fá gögn? Þetta snýst bara ofur einfaldlega um þetta. Það er nákvæmlega þetta sem hæstv. forsætisráðherra er að búa til sem fordæmi inn í framtíðina. Hæstv. forsætisráðherra telur að ráðherrann megi þetta, af því honum finnst, þvert á lög, að þingið eigi ekki að fá einhver tiltekin gögn.

Þetta er ekkert flóknara. Það er verið að reyna að flækja þetta hér með alls konar útúrsnúningum og vísan í einhver dæmi úr fortíðinni sem engu máli skipta. Menn eru á hröðum flótta undan grundvallaratriðum málsins. Þessa hugsun, sem ráðherrar eru væntanlega að ramma inn með atkvæði sínu í dag, má kjarna í fleygum orðum: Ég á þetta, ég má þetta. Mér finnst þetta, ég ætla að gera þetta. Ég ætla ekki að virða lög sem tryggja rétt þingsins til upplýsinga. Flóknara er það ekki.

Það er gild ástæða fyrir því að við búum við þrískiptingu ríkisvaldsins. Það er ástæða fyrir því að við höfum hingað til mestan part virt þá sömu þrískiptingu. Við viljum ekki að ráðherra traðki á rétti þingsins til að vinna vinnuna sína. Hlustum ekki á rök með tilvísun í forsögu sem skiptir ekki máli þegar þetta grundvallaratriði er undir. Einkunnarorð þingsins ættu að vera betri og innihaldsríkari og meira í takt við stjórnskipun landsins en: Ég á þetta, ég má þetta. Ég ætla að gera þetta af því að mér finnst að ég eigi að mega gera þetta. Svona vinnum við ekki á þingi. Ráðherra sem segir: Ég á þetta, ég má þetta, verður að víkja.