Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[11:59]
Horfa

Flm. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P):

Forseti. Mér þykir leitt að tilkynna hversu sannspá ég var um nákvæmlega þá útúrsnúninga sem stjórnarliðar myndu nota um hvers vegna þau vildu akkúrat ekki tala um lögbrot ráðherra sjálfs. Þau töluðu um ríkisborgararétt, Útlendingastofnun, útlendinga og dylgjur dómsmálaráðherra í garð þingmanna allsherjar- og menntamálanefndar. Ég veit ekki alveg hvort stjórnarliðar átti sig á því, að með því að saka okkur um að þetta vantraust sé af þeim völdum þá eru þau að endurtaka nákvæmlega það sama og hæstv. dómsmálaráðherra gerði. Hann ber á borð þennan róg og dylgjur til að afvegaleiða umræðuna og hér koma hæstv. forsætisráðherra, hæstv. innviðaráðherra og þingflokksformaður Vinstri grænna og endurtaka þetta og telja okkur í einhverjum hefndarhug, til að reyna að beina sjónum frá því sem máli skiptir hér; stjórnskipan lýðveldisins Íslands.

Ég átti heldur ekki von á að heyra ráðherra í ríkisstjórn Íslands endurtaka afsannaðan málflutning dómsmálaráðherra og gera lítið úr vönduðu minnisblaði skrifstofu Alþingis. Hvaða brýr er meiri hlutinn ekki til í að brenna í þessari vegferð sinni til að halda völdum? Nú hefur utanríkisráðherra endurtekið afstöðu dómsmálaráðherra um að smætta upplýsingarétt Alþingis ofan í eitthvert eftirlitsbox sem ráðherrar þykjast hafa skilgreiningarvald á, eins og það sé ráðherranna að meta hvaða upplýsingar þingið þurfi og hverjar ekki. Eiga þeir núna bara að fá að segja nei þegar við biðjum um upplýsingar í nefndum þingsins þegar við erum að vinna lög? Þetta eru skilaboðin sem hæstv. ráðherrar í ríkisstjórn eru að senda okkur.

Í tilraun sinni til að afvegaleiða umræðuna um eigin lögbrot fór dómsmálaráðherra með ósannindi og dylgjur um aðra þingmenn, og hér er glæpurinn endurtekinn. Svo reyna þau öll, hvert á fætur öðru, að halda því fram að það sé einhver lögfræðilegur ágreiningur um það að þingið eigi rétt á að kalla til gögn þegar það vinnur að lagasetningu. Hvert erum við eiginlega komin, í alvöru talað?

Ég held að ég verði að lesa niðurlag þessa minnisblaðs fyrir hæstv. ráðherra. Hér stendur, með leyfi forseta:

„[51. gr. þingskapalaga] felur í sér þá meginreglu að Alþingi eigi aðgang að upplýsingum frá stjórnvöldum sem eru því nauðsynlegar til að þingið geti gegnt hlutverki sínu.“

Þetta er ekki flóknara en það. Ákvæðið hefur víðtækt gildissvið og það eru ekki gerðar ríkar kröfur til þess hvernig mál, sem nefnd hefur til umfjöllunar, er afmarkað. Þetta er það sem ráðherrar í þessari ríkisstjórn eru að andmæla. Það er rosalegt, virðulegi forseti, hversu langt þessi meiri hluti er tilbúinn að ganga til að verja eigin stóla. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)