Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[12:12]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Frú forseti. Í umræðunni hér fyrr í dag ræddi ég um hina eitruðu umræðuhefð sem því miður er orðin staðreynd hér á Alþingi í umræðu um útlendingamál. Það er mikilvægt að hér í þessum sal ræðum við staðreyndir af skynsemi og yfirvegun og mannúð þegar um slíka viðkvæma málaflokka er að ræða. Grundvöllur vantrauststillögunnar byggir á veikum lögfræðilegum grunni. Rökstuðningur stjórnarandstöðunnar hér í dag hefur engu bætt við. Við stöndum hins vegar frammi fyrir gríðarlega mikilvægu verkefni, að verja lífskjör þjóðarinnar við sérstakar efnahagslegar aðstæður. Einbeitum okkur að því verkefni. Það er afstaða okkar í Framsókn og því munum við greiða atkvæði gegn vantrauststillögunni hér í dag.