Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[12:23]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér er borin upp tillaga og rökin fyrir þeirri tillögu er minnisblað frá nefndasviði Alþingis. Einhverjir draga þá ályktun af lestri þessa blaðs að ráðherra hafi brotið lög. Það er pólitísk niðurstaða. Það er pólitísk niðurstaða að draga þá ályktun af þessu minnisblaði að hæstv. ráðherra hafi brotið lög. Hæstv. ráðherra hefur ekki fyrirskipað undirstofnun að fylgja ekki lögum. Aftur á móti hljóp í kekki milli allsherjar- og menntamálanefndar, Útlendingastofnunar og ráðuneytisins og það er alveg ljóst að það fyrirkomulag sem farið hafði verið eftir var komið út í skurð. Við höfum núna, að ég hélt, fundið nýja og betri leið til að fara í þetta verkefni og það sýna þau lög sem allsherjar- og menntamálanefnd hefur lagt fram og við höfum sameinast um að samþykkja þegar við veitum íslenskan ríkisborgararétt. (Forseti hringir.)

Virðulegur forseti. Ég vona að við getum horft til framtíðar, hætt að horfa til fortíðar (Forseti hringir.) og hætt að draga pólitískar ályktanir af því sem hérna stendur. Horfum bara á lögin. Það er alveg skýrt að þingið á rétt á upplýsingum, það er alveg skýrt, og þær hafa borist þinginu.