Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[12:25]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Það ætti ekki að koma neinum á óvart að ég vantreysti dómsmálaráðherra til þess að sinna starfi ráðherra. Það þýðir ekki að ég þurfi að leggja fram vantrauststillögu til að sýna fram á það vantraust mitt. Ef svo væri, þá þyrftum við að ganga í gegnum þetta ferli á hverjum degi enda er það svo sem hlutverk þingmanna meiri hlutans að verja störf ráðherra sinna eða skipta þeim út. Því væru daglegar vantrauststillögur alveg tilgangslausar.

En stundum koma upp mál sem reyna á þennan stuðning meiri hluta þingsins og um það snýst þetta mál. Þetta snýst ekki um að við séum pólitískt ósammála, eins og fjármálaráðherra ýjar að. Umræðan hérna snýst dálítið um það, eins og hún er búin að vera, að við segjum: Það er sýnt fram á að ráðherra hafi brotið lög. Þingmenn og ráðherrar meiri hlutans koma og segja: Nei, þið meinið í rauninni eitthvað annað, þið meinið í raun og veru að ykkur er illa við dómsmálaráðherra. Þetta heitir gaslýsing, ekkert flóknara en það. (Forseti hringir.) Þetta er ásökun um óheiðarleika, að við séum óheiðarleg í framsetningu okkar. (Forseti hringir.) En þetta er rosalega skýrt og við segjum það aftur og aftur — þetta snýst um að ráðherra sagði: Nei, þingið má ekki fá þessi gögn.