Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[12:45]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að koma hingað upp til að tjá mig meira um þetta mál eða um atkvæðagreiðsluna, en þó er það þannig, og verður að koma skýrt fram úr þessum ræðustóli, að það er alvanalegt að ráðuneyti taki saman gögn, reikni jafnvel út og búi til alls kyns efni, skýrslur, upplýsingar og annað, sem liggur jú líklega fyrir í ráðuneytunum en er kannski ekki alltaf allt í sömu möppunni. Þetta gerist á hverjum degi í Stjórnarráðinu. Það er ekkert óvenjulegt við það að Stjórnarráðið taki saman gögn, pappíra og annað með þeim hætti sem hér hefur verið gert áratugum saman. Það á við í þessu máli eins og öllum öðrum.

Næst ætla ég að muna það sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra benti okkur á í umræðunni, fyrst ég er komin hingað upp, að kannski er bara best að flytja vantrauststillögur af því að maður er svo rosalega leiður á ríkisstjórninni. [Hlátur í þingsal.]