Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[12:59]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Mig langar fyrst og fremst að ítreka að þetta snýst ekki um einstaka mál, svo sem um veitingu ríkisborgararéttar, og þetta snýst alls ekki um útlendinga, bara svo að það sé á hreinu. Hins vegar, þrátt fyrir staðhæfingar stjórnarliða, eru þessi gögn bara víst til staðar. Það þarf ekkert að deila um það meira, enda er það bara sóun á tíma. Þetta snýst líka um bersýnilega vanvirðingu ríkisstjórnarinnar við lög um þingsköp og 2. gr. stjórnarskrárinnar. Ég minni líka á að ráðherrar hafa komið hingað upp hver á eftir öðrum og réttlætt skítleg vinnubrögð hæstv. dómsmálaráðherra sem leiddu til þess að þingið hefur ekki getað sinnt lögbundnum störfum sínum. Vanvirðing hæstv. dómsmálaráðherra við lög um þingsköp og meginreglur um þrískiptingu ríkisvalds hefur náð hæstu hæðum hér á Alþingi og ráðherra þessarar ríkisstjórnar sömuleiðis með því að verja þessa hegðun. Hér erum við að segja stopp og við erum að leggja fram þessa vantrauststillögu. Ríkisstjórnin getur kennt sér einni um þá stöðu sem hér er komin upp, enda hefði átt að binda enda á þetta skítamix á valdsviðum framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins fyrir löngu. — Ég segi já.