132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Þýðingar kjarasamninga á erlend tungumál.

617. mál
[12:23]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Valdimar L. Friðriksson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að óska hæstv. félagsmálaráðherra til hamingju með embættið. Í desember sl. voru sett lög á Alþingi um starfsmannaleigur og í framhaldi af því hef ég verið að velta fyrir mér þessari fyrirspurn varðandi kjarasamninga. Það er orðið ljóst að vegna mikillar fjölgunar nýbúa á Íslandi er erlent vinnuafl orðinn stór hluti af atvinnumarkaðnum. Það voru gefin út um sex þúsund atvinnuleyfi á síðasta ári, ýmist tímabundin eða til lengri tíma.

Það er ljóst að við þurfum á erlendu vinnuafli að halda og því er ástæða til að skapa því fólki sem best skilyrði bæði þeirra vegna og fyrirtækjanna og okkar allra.

Lögin um starfsmannaleigur voru sett í kjölfar starfshóps sem félagsmálaráðherra skipaði 2004 og þau voru sett m.a. vegna óróa sem hafði skapast á íslenskum vinnumarkaði og frumvarpinu ætlað að skýra leikreglur. Erlendir starfsmenn komu oft hingað á lakari kjörum en eru samkvæmt kjarasamningum og samkvæmt lögum, sem m.a. getur leitt til að hér skapist óheilbrigð samkeppni. Ég hefði haldið að í framhaldi af þessu væri eðlilegt að félagsmálaráðuneytið hefði frumkvæði að því að þýða helstu kjarasamninga á helstu tungumál. Það eru að vísu nokkrir tugir þjóðarbrota hér á Íslandi en mest hafa menn talað um ensku, pólsku og litháísku. Að sjálfsögðu kostar verulega fjármuni að þýða þessa samninga en þeir eru endurnýjaðir á fjögurra ára fresti og grunnurinn oft sá sami, þannig að þetta er kannski fyrst og fremst stofnkostnaður. Eitthvað hafa stéttarfélögin gefið út af grunnupplýsingum en ég hefði haldið að það væri eðlilegt að félagsmálaráðuneytið hefði frumkvæði í þessu máli og spyr því hæstv. félagsmálaráðherra:

Hyggst ráðherra standa fyrir því að íslenskir kjarasamningar verði þýddir á erlend tungumál til hagsbóta fyrir fyrirtæki og fjölda erlendra starfsmanna hérlendis?