132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Þýðingar kjarasamninga á erlend tungumál.

617. mál
[12:26]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Í ljósi mikillar fjölgunar erlendra starfsmanna á allra síðustu árum er hér hreyft við afar þýðingarmiklu máli. Ég vil fyrst geta þess að íslenskur vinnumarkaður hefur nokkra sérstöðu í samanburði við vinnumarkaði annarra landa. Eitt af því sem vekur athygli er fjöldi samningsaðila á vinnumarkaði þar sem starfsmannafjöldinn er ekki mikill í alþjóðlegum samanburði.

Á vegum ríkissáttasemjara, eða í húsakynnum embættisins, eiga sér stað stöðugar samningaviðræður árið um kring um kaup og kjör. Lauslega áætlað munu vera í gildi um 600 kjarasamningar. Það fer þó eftir því hvernig kjarasamningur er skilgreindur hver talan er en samkvæmt varlegri ágiskun munu vera í gildi 500–600 kjarasamningar þar sem fjallað er um réttindi og skyldur aðila. Þessu til viðbótar eru stofnanasamningar. Í þeim er að jafnaði kveðið á um fleira en launagreiðslur, þ.e. réttindi, skyldur og önnur vinnuskilyrði. Aðilar vinnumarkaðarins standa að gerð kjarasamninga án afskipta stjórnvalda með hliðsjón af þeirri meginreglu að þar sem kjarasamningaviðræður hafa verið á verksviði aðila hefur verið litið svo á að eftirlit með að kjarasamningar séu haldnir sé einnig á ábyrgð aðilanna sjálfra. Verður þetta enn fremur að teljast eðlilegt í ljósi þess að um frjálsa samninga er að ræða milli aðila. Hlýtur það að teljast í verkahring stéttarfélaganna að tryggja að félagsmenn þeirra njóti viðunandi aðstoðar við að átta sig á efni kjarasamninga. Er það jafnframt í samræmi við þá venju að stéttarfélög hafa litið á það sem hlut af sjálfsagðri þjónustu að upplýsa félagsmenn um efni slíkra samninga og gildir þá einu hvort um er að ræða Íslendinga eða útlendinga.

Meðal annars af þeirri ástæðu hefur sú leið verið farin að taka saman yfirlitsrit um helstu ákvæði kjarasamninga. Þetta hafa heildarsamtök og einstök stéttarfélög launafólks gert. Alþýðusamband Íslands gaf út fyrir réttum tveimur árum myndarlegt rit af þessu tagi á ensku sem einnig er að finna á heimasíðu ASÍ. Afl, stéttarfélag á Austurlandi, gaf út sams konar rit á pólsku.

Félagsmálaráðuneytið telur engu að síður mikilvægt að stuðla að því að útlendingar sem starfa hér á landi hafi aðgengi að upplýsingum um réttindi sín og skyldur á grundvelli reglna sem hér gilda. Ráðuneytið hefur beitt sér fyrir þýðingu laga sem gilda á vinnumarkaðnum sem og annarra laga um málefnasvið þess yfir á enska tungu. Enn fremur hafa bæði Vinnumálastofnun og Vinnueftirlit ríkisins gefið út kynningarrit um aðstæður á íslenskum vinnumarkaði. Má þar sérstaklega nefna kynningarrit Vinnueftirlits ríkisins um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum sem gefin voru út á átta tungumálum. Það er því hægt að fullyrða að miðlun opinberra aðila á upplýsingum um íslenska samfélagið á erlendum tungumálum er nú allt önnur og betri en var fyrir nokkrum árum. Því má svo bæta við að stöðugt er unnið að umbótum á þessu sviði.

Í þessu sambandi er rétt að vekja á því athygli að ríkisstjórnin hefur ákveðið að hrinda í framkvæmd á næstu tveimur árum eða svo nýrri rafrænni upplýsingaveitu, Ísland.is, fyrir alla íbúa landsins. Framlag félagsmálaráðuneytisins til þess verkefnis er m.a. að bæta upplýsingamiðlun til útlendinga í samvinnu við fjölmenningarsetur á Ísafirði. Þar eiga að vera grundvallarupplýsingar fyrir innflytjendur og upplýsingar ætlaðar starfsfólki í opinberri þjónustu. Innflytjendaráð sem félagsmálaráðherra skipaði seint á sl. ári er nú að forgangsraða verkefnum. Framarlega á þeim lista er miðlun upplýsinga til fólks með erlendan bakgrunn bæði hvað varðar helstu upplýsingar þegar fólk kemur til landsins og einnig miðlun upplýsinga á erlendum málum um íslenskt samfélag, réttindi og skyldur, einkum upplýsingar frá ríki og sveitarfélögum.

Virðulegi forseti. Það er ljóst að á undanförnum árum hefur margt verið gert til að upplýsa innflytjendur um réttindi þeirra og skyldur bæði í samfélaginu almennt og eins af því sem varðar réttarstöðuna á vinnumarkaðnum. Þó talið hafi verið að þetta sé hluti af þjónustu stéttarfélaganna við félagsmenn þá útiloka ég alls ekki aðild félagsmálaráðuneytisins að umbótastarfi á þessu sviði og þá helst í samvinnu við heildarsamtök atvinnurekenda og launafólks.

Eitt af því mikilvægasta varðandi aðlögun útlendinga hér á landi er einmitt upplýsingamiðlun og ég vil sem félagsmálaráðherra stuðla að því að hún sé fyrir hendi og að hún sé bætt enn frekar.