132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Þýðingar kjarasamninga á erlend tungumál.

617. mál
[12:33]
Hlusta

Ísólfur Gylfi Pálmason (F):

Virðulegi forseti. Við lifum í síbreytilegu samfélagi sem verður æ alþjóðavæddara með hverju árinu sem líður og hér er hreyft við afar mikilvægu máli og það ber að þakka. Hingað kemur erlent vinnuafl sem stoppar bæði stutt og lengi, mjög margir eru farnir að búa hér og hafa búið hér í langan tíma. Í litlu samfélagi eins og ég kem úr uppi í Hrunamannahreppi eru tæplega 10% íbúanna af erlendu bergi brotnir. Sömu sögu má segja á stað eins og Hvolsvelli þar sem er mikil kjötvinnsla, þar er gríðarlega mikið af erlendu vinnuafli sem starfar við kjötvinnsluna. Mér finnst að atvinnurekendur, verkalýðsfélög og sveitarfélög eigi að taka höndum saman til þess að styrkja útlendinga og styðja þá í að læra íslensku því að íslenskan er í raun og veru grundvöllur þess að fólkið festi hér rætur, en auðvitað þurfa kjarasamningar og meginreglur að vera á því tungumáli sem viðkomandi aðilar skilja.