132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu.

485. mál
[13:10]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Spurt er:

„1. Hversu oft á undanförnum tveimur árum hefur öldrunarsjúklingum á fimm daga deildum Landspítala – háskólasjúkrahúss (LSH) verið synjað um heimahjúkrun?“

Þau tilvik þar sem öldrunarsjúklingum hefur verið synjað um heimahjúkrun hafa ekki verið skráð með formlegum hætti, hvorki af hálfu LSH né Miðstöðvar heimahjúkrunar hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Samkvæmt mati hjúkrunardeildarstjóra á fimm daga deildum LSH er um 3–4 sjúklingum sem liggja á fimm sólarhringa deildum synjað um heimahjúkrun um helgar og nokkur dæmi eru um slíka synjun nokkrar helgar í röð. Heimahjúkrun á vegum heilsugæslunnar hefur fengið fjárveitingar til að veita aukna þjónustu um helgar en erfiðlega hefur gengið að fá starfsfólk til að sinna þeim vöktum. Þó skal þess getið að heimahjúkrunin sinnir nú yfir 400 vitjunum um helgar.

„2. Hversu oft á sama tímabili hefur slík synjun komið í veg fyrir útskrift sjúklinga?“

Því er til að svara að ekki liggja fyrir tölulegar upplýsingar um fjölda þeirra sjúklinga sem hafa þurft að dveljast lengur á sjúkrahúsinu vegna skorts á heimahjúkrun en samkvæmt upplýsingum frá LSH hafa slíkar synjanir tafið útskriftir, stundum um nokkra daga og í einhverjum tilfellum um vikur. Þá eru dæmi um tímabil þegar heimahjúkrun hefur ekki getað tekið við fleiri skjólstæðingum og sjúklingar hafa verið útskrifaðir án þess að hægt væri að tryggja að æskileg þjónusta fengist í heimahúsum.

Þá hefur komið fyrir tímabundið að vegna manneklu í heimahjúkrun hafi ekki verið hægt að bæta við þjónustu um helgar og nætur eins og æskilegt hefur þótt. Þessar aðstæður skapast fyrst og fremst af skorti á fagmenntuðu starfsfólki en fjármagn hefur verið fyrir hendi.

„3. Hversu oft á sama tímabili hefur aðeins verið unnt að bjóða öldruðum sem stóð til að útskrifa af LSH upp á skerta heimahjúkrunarþjónustu?“

Því er til að svara að engar tölur liggja fyrir um hve þessi tilvik eru mörg. Við útskrift sjúklinga er lagt mat á þörf þeirra fyrir þjónustu í heimahúsum en því er ekki fylgt eftir af hálfu spítalans með reglubundnum hætti hvort þessum þörfum, eins og spítalinn skilgreinir þær, er mætt. Þegar sjúklingur er kominn heim leggur heimahjúkrunin mat á þjónustuþörfina. Oft er reyndin sú að sjúklingar þurfa minni þjónustu heimahjúkrunar en sjúkrahúsið hafði gert ráð fyrir en mun meiri þjónustu af hálfu heimilishjálpar félagsþjónustu sveitarfélaganna. Því miður er það svo að heimilishjálp frá félagsþjónustu sveitarfélaga er oft flöskuhálsinn í þessu kerfi þar sem stöðug mannekla hefur hrjáð starfsemina.

Virðulegur forseti. Ég tel að það sé rétt stefna að efla þjónustu við aldraða í heimahúsum og það er í samræmi við vilja þorra þeirra. Ég hyggst beita mér fyrir því að svo verði gert og ég tel mikilvægt að bæði LSH og Miðstöð heimahjúkrunar á höfuðborgarsvæðinu hafi með sér gott samstarf um framkvæmd þessarar þjónustu. Það verður að viðurkennast að vandinn er skortur á starfsfólki þannig að það er auðveldara um að tala en í að komast í þessu efnum. En ég vil líka benda á að búið er að skoða svolítið biðlista fyrir dvalarheimili og hjúkrunarheimili, sem er auðvitað annað en sjúkrahús, og þar hefur komið í ljós að talsvert af því fólki sem er á biðlistunum gæti farið út af þeim ef það fengi nægilega heimahjúkrun og félagsþjónustu frá sveitarfélaginu. Það má því segja að heimahjúkrunin og félagsþjónustan sé flöskuháls sem erfitt er að eiga við. Það er mannekla og í þeirri þenslu sem nú er í samfélaginu hefur reynst erfitt að manna þessar stöður.