133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

almenn hegningarlög.

465. mál
[12:01]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Hér erum við að ræða frumvarp til laga um breyting á almennum hegningarlögum sem eykur refsivernd lögreglumanna. Ég tek það fram í upphafi að við styðjum þetta mál, teljum það jákvætt skref í að auka refsivernd lögreglu sem hefur lengi kallað eftir lagabreytingum í þá átt sem hér er á ferðinni.

Til að byrja með langar mig auðvitað að setja þetta mál í það samhengi og það umhverfi sem lögreglumenn almennt starfa í. Eðli málsins samkvæmt er það hluti af starfi þeirra að setja sig í hættu og það er ólíkt öðrum opinberum starfsmönnum að það er hluti af starfsskyldu þeirra. Við sjáum að álag á lögreglumönnum er mikið. Það kom fram í meðförum nefndarinnar að samkvæmt könnun sem Landssamband lögreglumanna hefur gert er meðallífaldur lögreglumanna 10 árum lægri en annarra einstaklinga í þessu samfélagi. Það kom einnig fram að 1% stéttarinnar hefur svipt sig lífi. Þetta eru vísbendingar um að álag sé mikið á lögreglumenn og þetta er ákall til okkar um að standa okkur betur í að draga úr því álagi og tryggja öryggi þeirra á vettvangi.

Það eru miklir hagsmunir í húfi, bæði fyrir viðkomandi einstaklinga en það má heldur ekki gleyma því að á bak við lögregluvaldið liggja ákveðnir almannahagsmunir og ef ráðist er á lögreglumann er ekki bara verið að ráðast á hann sem einstakling, heldur líka á þessa almannahagsmuni. Þess vegna er það fullkomlega réttlætanlegt og skynsamlegt að þessi stétt búi við sérstaka refsivernd, að það varði þyngri refsingu að ráðast á lögreglumann en á aðrar stéttir. Ég held að slíkt sé til staðar í öllum löndum sem við berum okkur helst saman við. Almannahagsmunir eru hér að baki sem kalla á þessar sérstöku leiðir sem farnar eru í núverandi lögum og í þessu frumvarpi.

Það má heldur ekki gleyma annarri stétt sem verður fyrir ofbeldi, tollvörðum. Það kom fram í meðförum allsherjarnefndar að tollverðir verða fyrir ofbeldi eins og lögreglumenn, og kannski ekki síst fyrir svívirðingum og hótunum. Það var dregið sérstaklega fram í máli fulltrúa þeirra að oft er fjölskyldu tollvarðar hótað. Auðvitað gerist slíkt einnig í tilviki lögreglumanna og hugsanlega í æ meira mæli en áður en þetta finnst mér grafalvarlegt. Við höfum hér tvær stéttir sem sinna grundvallarstarfi í samfélagi okkar sem þurfa að búa við slíkt umhverfi. Kannski er aldrei hægt að koma alveg í veg fyrir það en í þeim tilvikum sem þetta kemur upp er að mínu mati nauðsynlegt að hart sé brugðist við. Við þurfum að finna einhvers konar úrræði gegn slíkum hótunum í garð fjölskyldna þessara einstaklinga, það er barátta sem við eigum aldrei að gefa eftir í.

Við sjáum líka að í þeim málum sem lúta að ofbeldi í garð lögreglu og hafa þó farið fyrir dómskerfið eru dómarnir skammarlega vægir. Ég hef oft gagnrýnt dómstólana úr þessum ræðustóli og annars staðar, mér finnst dómstólar landsins vera að hunsa ákveðinn löggjafarvilja sem birtist í lögunum. Við erum búin að taka pólitíska ákvörðun um þann refsiramma sem dómstólar ákváðu síðan að hunsa. Þetta er að sjálfsögðu ekki eini málaflokkurinn sem þetta varðar. Skýrasta dæmið er að sjálfsögðu kynferðisafbrotin. Þar eru skammarlega vægir dómar eins og öll þjóðin áttar sig á og sér vikulega. Við þurfum að brjóta þennan vítahring. Það er ekki nóg að ná fram réttlæti, það þarf líka að líta út fyrir að réttlæti hafi verið náð. Ég held að hvorugt þessara skilyrða hafi verið uppfyllt hvað varðar þennan málaflokk og síðan kynferðisafbrotin. Við ræðum vonandi kynferðisafbrotin seinna í dag þar sem sérstakt frumvarp verður til umræðu hvað það varðar, ýmsar góðar réttarbætur þar á ferðinni.

Ef þetta frumvarp verður samþykkt fá dómstólar þau skýru skilaboð frá löggjafanum að taka harðar á því ofbeldi sem beitt er gegn lögreglumönnum. Það er viðurkennt í lögfræðinni að þegar löggjafinn ákveður að hækka hámarksrefsinguna eins og við erum að gera hér eru það skilaboð til dómstólanna um að þyngja refsingar. Það gefur einnig dómstólunum færi og möguleika á að komast upp úr þeim fordæmum sem þeir að sjálfsögðu líta til og eiga að líta til. Af því að fordæmi eftir fordæmi særir réttlætisvitund þjóðarinnar og fer í bága við þann vilja sem hér birtist þurfum við með einhverjum hætti að taka á því. Hér er farin sú leið að hækka einfaldlega hámarksrefsinguna til að koma þessum skilaboðum til dómstólanna.

En þetta eru ekki bara skilaboð til dómstóla, þetta eru líka skilaboð út í samfélagið um að það verði tekið hart á ofbeldi í garð lögreglumanna og tollvarða. Varnaðaráhrif löggjafarinnar geta verið mikil, bæði þau almennu og hin sértæku. Skilaboð löggjafans skipta miklu máli. Við þurfum að senda út þau skilaboð að okkur sé alvara með að bregðast við langvarandi vanda og ákalli lögreglumanna.

Það er einnig mikilvægt að huga að þeirri staðreynd að stór hluti þessara mála er látinn falla niður í meðförum ríkissaksóknara. Þessi mál eiga það einnig sameiginlegt með kynferðisbrotunum að mínu mati að allt of mörg mál sem þó komast til ríkissaksóknara eru látin falla niður. Á þetta bentu lögreglumenn í meðförum þessa máls í nefndinni og við þurfum einhvern veginn að hækka hlutfall þeirra mála sem rata til dómstólanna.

Ég vona að ég fari ekki rangt með en fulltrúar frá ríkislögreglustjóraembættinu bentu á að 90% þeirra mála sem hér er um að ræða eru látin falla niður hjá ríkissaksóknara. (Gripið fram í: Á hendur lögreglunni?) Já, á hendur lögreglunni, 90%. Þetta skrifaði ég a.m.k. eftir honum. Ef þetta er rangt dreg ég það til baka en þetta er auðvitað sláandi hlutfall ef rétt er. Þetta er annar angi af vandamálinu. Auðvitað veit ég að ríkissaksóknari getur verið í erfiðri aðstöðu þegar kemur að því að fara með svona mál til dómstóla en við skulum leyfa dómstólunum að skera úr vafaatriðum. Ég geri mér fulla grein fyrir því að ákæruvaldið er bundið þeirri reglu að fara ekki með mál af stað nema það sé líklegt til sakfellis. Ég átta mig vel á því en ég bendi einnig á að þau brot sem hér er um að ræða eru svokölluð samhverf brot. Hvað þýðir það? Það þýðir að það er ekki áskilið að það sé raunverulegt tjón. Það þarf ekki að sanna að það sé líkamlegt tjón eða tjón á eignum í samhverfum brotum. Þetta skiptir máli því að oft eru mál látin falla niður ef tjónsafleiðingar eru engar. Í málum samhverfra brota á hins vegar að fara af stað.

Þetta hefur líka þau áhrif, bæði hinir vægu dómar sem við sjáum hvað varðar ofbeldi gagnvart lögreglumönnum og síðan þetta háa hlutfall mála sem er látið falla niður hjá ríkissaksóknara, að draga hugsanlega úr hvatningu til lögreglumanna um að standa í málinu. Hugsanlega sjá þeir ekki ástæðu til að standa í því. En það á að sjálfsögðu ekki að þurfa og hér á ákæruvaldið að koma inn.

Ég fer að ljúka máli mínu þar sem ég styð frumvarpið og hef bent á nokkra þætti því til stuðnings. Vonandi mun þetta leiða til þess að ofbeldi í garð lögreglumanna og tollvarða minnki. Það er auðvitað markmiðið. Það eru væntanlega mörg skref sem þarf að taka í því. Hér er verið að taka eitt skref sem er nauðsynlegt að mínu mati. Síðan er það stóra spurningin um að auka almenna virðingu fyrir lögreglumönnum og tollvörðum. Við eigum að hafa það innprentað í vitund okkar og samfélag að sýna lögreglumönnum og tollvörðum tilhlýðilega virðingu. Þetta eru einstaklingar sem vinna afar mikilvægt starf í okkar samfélagi. Það er hluti af starfsskyldu þeirra að setja sig í hættu, og skilaboð okkar úr þessum sal þurfa að vera mjög skýr um að við munum ekki líða að það sé brotið á þessum einstaklingum.