136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

náttúruvernd.

362. mál
[16:04]
Horfa

umhverfisráðherra (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þessa athugasemd og tel að hún sé málefnaleg og fullkomlega eðlileg. Reglugerðarheimildinni er haldið í frumvarpsgreininni eins og hún er, samkvæmt lagatextanum er umhverfisráðherra heimilt að setja í reglugerð, reyndar að fengnum tillögum frá Umhverfisstofnun, nánari ákvæði um menntun og starfsskyldur þeirra sem starfa á náttúruverndarsvæðum. Reglugerðarheimildin til umhverfisráðuneytisins eða ráðherrans er því enn til staðar.

Lagagreinin gerir ráð fyrir að Umhverfisstofnun meti hvort menntunarkröfurnar séu nægar. Það er gilt sjónarmið hvort það sé Umhverfisstofnunar að meta það og þá á hvern hátt það er gert. Vel kann að vera að Umhverfisstofnun líti svo á eða hægt sé að líta svo á að þeir sem hafa próf úr Leiðsögumannaskólanum eða eru landfræðingar eða líffræðingar þurfi ekki að fara á þetta námskeið en um það þori ég ekki að fullyrða vegna þess að ég veit ekki nákvæmlega hver námskrá námskeiðsins er. Það sem ég veit er að starfið varðar fyrst og fremst umgengni á náttúruverndarsvæðunum, það að rata um svæðin og samskipti við ferðamenn þar, það varðar einnig aðstöðu, salernisaðstöðu, veitingasölu sem mögulega er til staðar, tjaldsvæði og slíkt þannig að til þess þarf miklar upplýsingar um þessi tilteknu náttúruverndarsvæði sem einstakir landfræðingar eru kannski ekkert sérstaklega menntaðir í.

Þó að eftirsóknarvert sé að fá til landvörslunnar fólk sem hefur yfirgripsmikla menntun, líffræðinga eða landfræðinga, er ekki þar með sagt að óeðlilegt sé að fólk með þá menntun fari á einhverjum örfáum tímum yfir þær kröfur sem gerðar eru til þeirra sem starfa sem landverðir.

Þetta eru álitamál sem eðlilegt er að ræða og ég tel (Forseti hringir.) athugasemdina frá hv. þingmanni fullkomlega eðlilega.