136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 114/2007, um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

361. mál
[16:13]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það er mér sérstök ánægja að mæla hér fyrir þingsályktunartillögu um 361. mál þingsins þar sem leitað er heimildar Alþingis til þess að staðfesta fyrir hönd íslenska ríkisins ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem er nr. 114/2007 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn og fella inn í samninginn tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2007/16/EB um framkvæmd tilskipunar ráðsins 85/611/ EBE. Tillagan varðar samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um fyrirtæki og sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum, að því er varðar útskýringu á tilteknum skilgreiningum.

Grein er gerð fyrir efni ákvörðunarinnar í tillögunni og ákvörðunin er sömuleiðis prentuð sem fylgiskjal með þingsályktunartillögunni ásamt þeirri gagnmerku tilskipun sem hér um ræðir. Í tilskipun 2007/16/EB eru sett fram sjónarmið sem eiga að auðvelda aðildarríkjunum að þróa sameiginlegan skilning á því hvort tiltekinn eignaflokkur sé hæfur fyrir verðbréfasjóð.

Í gildandi lögum er vísað til laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, varðandi skilgreiningu á hugtakinu „framseljanleg verðbréf“. Með innleiðingu þessarar tilskipunar í íslenskan rétt verður framvegis stuðst við skilgreiningu á hugtakinu framseljanleg verðbréf eins og hún er sett fram í tilskipun 85/611/EBE. Líka er gert ráð fyrir að í 30. gr. laga um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði verði um að ræða tæmandi talningu á þeim fjármálagerningum sem verðbréfasjóði eða fjárfestingarsjóði er heimilt að fjárfesta í.

Áhrifa þess að innleiða þessa tilskipun mun fyrst og fremst gæta hjá þeim sem lög um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði taka til, þ.e. til starfsemi og rekstrar þeirra sjóða sem hafa einkarétt á viðtöku á fé frá almenningi til sameiginlegrar fjárfestingar í fjármálagerningum, þ.e. framseljanlegum verðbréfum og öðrum lausafjáreignum á grundvelli áhættudreifingar fyrirframsamþykktrar og kunngerðrar fjárfestingarstefnu.

Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur verið kynnt sú staðreynd að seinkun verði á innleiðingu á efni gerðarinnar, sem þótti eðlilegt í ljósi þess að nú þegar hefur verið ákveðið að heildarendurskoðun á lagaumhverfi fjármálamarkaðarins fari fram, þar á meðal á þeim lögum sem ég vísaði í hér áðan, lögum nr. 30/2003, sem fjalla um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Viðskiptaráðuneytið gerir ráð fyrir því að tilskipun nr. 2007/16/EB verði innleidd með breytingu á þeim lögum og með setningu reglugerðar.

Það má segja að með innleiðingu þessarar tilskipunar í íslenskan rétt verði hér eftir eða eftir að innleiðingin hefur átt sér stað stuðst við skilgreiningu á framseljanlegum verðbréfum eins og sú skilgreining er sett fram í tilskipuninni og hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„„Framseljanleg verðbréf“:

hlutabréf í félögum og önnur verðbréf sem eru ígildi hlutabréfa í félögum (hér á eftir nefnd „hlutabréf“),

skuldabréf og önnur form á breytingu skulda í verðbréf (hér á eftir nefnd „skuldabréf“),

öll önnur framseljanleg verðbréf sem veita rétt til öflunar slíkra framseljanlegra verðbréfa með áskrift eða skiptum.“

Ég legg til, frú forseti, að þegar umræðu um þetta merkilega mál verður að fullu lokið verði tillögunni sjálfri vísað til faglegrar umfjöllunar í hv. utanríkismálanefnd.