138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

fjölgun starfa og atvinnuuppbygging.

[15:11]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Mig langar að ræða aðeins um fjölgun starfa og atvinnuuppbyggingu. Það er nauðsynlegt að við leggjumst öll á sveifina í þeim efnum að fjölga störfum í landinu, hvort sem það er á höfuðborgarsvæðinu eða norður í Þingeyjarsýslu.

Á dögunum heyrðum við fréttir þess efnis að umhverfisráðherra hefði tekið þá ákvörðun að hefja undirbúning að friðlýsingu Gjástykkis. Það kom reyndar heimamönnum talsvert á óvart að heyra í fjölmiðlum að það ferli væri farið af stað. Það hefði verið hægt að koma á fót eins og einum samráðsfundi til að ræða það við heimamenn sem eru vel að merkja á móti þessum fyrirhuguðu aðgerðum hæstv. umhverfisráðherra.

Það eru tveir flokkar í þessari ríkisstjórn, stundum fleiri reyndar, og væri áhugavert að heyra það frá hæstv. iðnaðarráðherra hvort hún sé sammála hæstv. umhverfisráðherra í því, og þá Vinstri grænum, að það eigi að friðlýsa Gjástykki. Samkvæmt svæðisskipulagi háhitasvæða er Gjástykki friðað að 98% leyti. Það er gert ráð fyrir mögulegum framkvæmdum á 2% fleti á þessu fallega svæði, það er ljóst. En ég spyr hæstv. ráðherra, í ljósi þess að þetta er lykilatriði er snertir atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslum, hvort hún er sammála hæstv. umhverfisráðherra í því að þetta svæði beri að þingfriða.

Mig langar líka að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra að því er varðar nýtingu náttúruauðlinda sem finnast í Þingeyjarsýslu, hvort hún sé á því að það komi til greina að flytja orku út af því svæði, jafnvel suður fyrir heiðar til atvinnustarfsemi þar. Það hefur verð baráttumál hjá Þingeyingum í gegnum tíðina að hafa yfirráð yfir orkuauðlindum sínum og ég veit til þess að þingmenn úr velflestum flokkum eru tilbúnir (Forseti hringir.) til að styðja þá í þeirri viðleitni.

Þetta eru þær tvær spurningar sem ég ber fram til hæstv. iðnaðarráðherra.