138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri.

446. mál
[16:00]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri. Í frumvarpinu er lagt til að rekstraraðilum í tímabundnum greiðsluvandræðum verði gefinn kostur á að óska eftir greiðsluuppgjöri á sköttum sem voru í vanskilum þann 1. janúar 2010 og fram til 1. júlí 2011 án frekari viðurlaga. Um er að ræða virðisaukaskatt, staðgreiðslu tekjuskatts og útsvars, tryggingagjald og þing- og sveitarsjóðsgjöld. Standist viðkomandi aðili sett skilyrði verða vanskilin sett á skuldabréf til fimm ára með verðbótum en án vaxta. Skilyrðin eru meðal annars þau að umsækjandi skal vera í skilum með alla aðra skatta og gjöld en þau sem sótt er um að fresta og einnig alla skatta og gjöld sem gjaldfalla frá 1. janúar til 1. júlí 2011. Auk þess þarf hann að lýsa því yfir að hann muni skila inn skilagreinum og framtölum til að tryggja rétta álagningu gjalda og viðurkenna greiðsluskyldu sína vegna krafna sem munu njóta frestsins. Fái hann frest munu dráttarvextir ekki leggjast á vanskilin frá 1. janúar 2010 til og með 30. júní 2011 og fullnustuaðgerðum vegna krafnanna verður frestað. Vonast er til að úrræðið geti hjálpað lífvænlegum fyrirtækjum yfir versta hjallann og tryggt þeim ákveðið rekstraröryggi næstu mánuði.

Eftir efnahagshrunið 2008 hafa verið lögfest ýmis úrræði til að styrkja stöðu einstaklinga í greiðsluerfiðleikum. Þótt þeim úrræðum sé fyrst og fremst ætlað að mæta vaxandi skuldabyrði íslenskra heimila vegna íbúða- og bílalána ná þau einnig til skatta og opinberra gjalda. Þessi úrræði hafa eingöngu náð til einstaklinga en ekki til lögaðila eða einstaklinga í atvinnurekstri. Bætt var við kafla um greiðsluaðlögun í lögin um gjaldþrotaskipti. Greiðsluaðlögun felur í sér að skuldir einstaklings eru lagaðar að greiðslugetu hans og falla skattar og gjöld undir greiðsluaðlögun eftir almennum reglum. Greiðsluaðlögunin nær eingöngu til einstaklinga sem ekki hafa borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnurekstri undangengin þrjú ár. Tímabundin greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði samkvæmt lögum nr. 50/2009 tekur til skattkrafna hafi þær verið tryggðar með aðfararveði í íbúðarhúsi þar sem skuldari heldur heimili sitt.

Nauðungarsölum á heimilum einstaklinga hefur verið frestað ítrekað með lagasetningu. Þá hefur skuldajöfnunarheimild barnabóta á móti vanskilum opinberra gjalda verið afnumin. Jafnframt hafa innheimtumenn ríkissjóðs fengið tilmæli frá fjármálaráðuneyti og tollstjóra um að milda innheimtuaðgerðir gagnvart einstaklingum eins og kostur er. Þannig veita innheimtumenn einstaklingum nú óskilyrt veðleyfi og skilmálabreytingar vegna aðfararveða. Einnig má nefna að viðmiðunarfjárhæðir við gerð greiðsluáætlana hjá innheimtumönnum, sem eingöngu ná til einstaklinga, hafa verið lækkaðar skuldara til hagsbóta, t.d. varðandi greiðsluáætlanir um launafrádrátt. Síðast en ekki síst tók fjármálaráðuneytið þá mikilvægu ákvörðun í lok síðasta árs að breyta greiðsluforgangi skattskulda frá og með 1. janúar 2010 þannig að greiðsla gengur fyrst upp í höfuðstól skuldar áður en kemur að greiðslu dráttarvaxta. Áður gekk greiðslan fyrst á móti dráttarvöxtum en síðar á móti höfuðstólnum. Þó að sú aðgerð gagnist jafnt einstaklingum sem fyrirtækjum er ljóst að hún veitir þeim fyrrnefndu nýja möguleika til þess að koma sínum persónulegu fjármálum, þar með talið skattgreiðslum, í eðlileg skil, um leið og hún dregur úr hvata til svartrar atvinnustarfsemi.

Lögaðilar og einstaklingar í atvinnurekstri hafa að mestu verið undanskildir í framangreindum aðgerðum stjórnvalda við að létta undir aðilum vegna vaxandi skuldavanda. Innheimtumenn ríkissjóðs hafa takmarkaðar heimildir til að beita ívilnandi innheimtuúrræðum gagnvart rekstraraðila sem ekki stendur skil á sköttum, hvort heldur um er að ræða vörsluskatta eða skatta af viðkomandi atvinnurekstri. Lífvænleg fyrirtæki berjast nú mörg hver í bökkum vegna vanskila gagnvart fjármálastofnunum, opinberum aðilum og öðrum kröfuhöfum og fátt annað blasir við sumum þeirra en gjaldþrot. Er nú jafnvel farið að bera á auknum vanskilum, m.a. á virðisaukaskatti, hjá rekstraraðilum sem alltaf hafa staðið skil á sínu. Sú staða er stjórnvöldum sérstakt áhyggjuefni og visst merki þess að grípa þurfi til aðgerða til að sporna við þessari þróun áður en í óefni er komið. Ekki síst í ljósi þessa er þetta frumvarp lagt fram.

Samkvæmt upplýsingum frá tollstjóra námu vanskil skatta og gjalda hjá lögaðilum og einstaklingum í atvinnurekstri samtals 111,8 milljörðum kr. í byrjun árs 2010. Tæplega 40 milljarðar kr. tilheyra rekstraraðilum sem eru komnir í gjaldþrotameðferð og koma þar með ekki til álita varðandi mögulegan greiðslufrest. Eftir standa um 72 milljarðar og af þeirri fjárhæð eru um 70 milljarðar sem taka þarf afstöðu til samkvæmt tillögum frumvarpsins, sé gengið út frá því að allir þeir aðilar sem voru með einhver vanskil um síðustu áramót sæki um frest til greiðsluuppgjörs. Þó er ljóst að umtalsverður hluti þeirrar fjárhæðar er tilkominn vegna áætlunar og mun því lækka þegar til endurálagningar kemur.

Erfitt er að leggja á það nákvæmt mat hvaða fjárhagslegu hagsmunir eru í húfi fyrir ríkissjóð verði frumvarpið að lögum. Ljóst er að aðeins hluti fyrrgreindrar fjárhæðar verður innheimtur að óbreyttu, eða 20–30% miðað við reynslutölur síðari ára. Með þessu úrræði er hins vegar verið að gefa eftir vaxtagreiðslur í allt að 18 mánuði til að byrja með, auk vaxta af útgefnu skuldabréfi í allt að fimm ár, en á móti kæmi ef að líkum lætur bætt höfuðstólsinnheimta og sterkari rekstraraðilar sem skila ættu auknum sköttum til framtíðar.

Samhliða þessu frumvarpi er lagt fram annað frumvarp, þ.e. það sem mælt var fyrir áðan, þar sem lagt er til að vanskil á vörslusköttum, þ.e. staðgreiðslu tekjuskatts og útsvars og virðisaukaskatts, verði gerð að forgangskröfum að nýju við gjaldþrotaskipti. Ætlunin með frumvarpinu er að samhliða því að ívilnandi innheimtuaðgerðir verði heimilaðar við innheimtu skatta og gjalda til að koma til móts við skuldsetta aðila verði kröfur ríkissjóðs tryggðar betur við gjaldþrotaskipti.

Að þessu sögðu legg ég til, frú forseti, að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari.