139. löggjafarþing — 91. fundur,  14. mars 2011.

kennaramenntun.

519. mál
[17:52]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég er með fyrirspurn til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra varðandi menntavísindasvið Háskóla Íslands, sem varð til við sameiningu Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands fyrir rúmum tveimur árum, og varðandi áherslur kennaradeildar Háskólans á Akureyri um mótun kennaramenntunar. Að mínu mati skipta þær áherslur sem við leggjum á kennaramenntun til framtíðar miklu máli, þær verða meðal annars að endurspegla þær áherslur sem þingið, mjög samhent þing, gerði 2008, allir flokkar stóðu að, varðandi heildarlöggjöfina um leik-, grunn- og framhaldsskóla.

Þar voru lagðar margar áherslur sem allir flokkar tóku undir, m.a. um sveigjanleg skólaskil, um þá áherslu að sérstaklega þurfi að efla iðn- og starfsnám og fagkennslu í grunn- og leikskólum, t.d. varðandi íslensku, raungreinamenntun, náttúrufræði og svo mætti lengi telja. Það má draga fram ýmis dæmi um skóla sem hafa fetað út á þá ánægjulegu braut að nýta sér það kerfi og það umhverfi sem skólalöggjöfin býður upp á varðandi nýjungar í skólastarfi. Til dæmis má nefna Krikaskóla í Mosfellsbæ sem er með börn frá eins árs aldri og upp í níu ára aldur þar sem verið er að draga fram þá samfellu sem við viljum undirstrika í löggjöfinni.

Þess vegna skiptir miklu máli hvaða áherslur menntavísindasvið Háskóla Íslands og kennaradeildin við Háskólann á Akureyri hafa haft til hliðsjónar við þessa nýju löggjöf. Ein meginástæðan fyrir því að Kennaraháskóli Íslands og Háskóli Íslands voru sameinaðir var sú að menn höfðu trú á því að hægt væri að efla kennaramenntunina enn frekar. Við ætluðum okkur að skila enn betri kennurum, og eigum þó góða kennara fyrir. Við ætluðum okkur að auka fjölbreytni námsins en um leið að tryggja að námið gæti svarað þeim kröfum sem atvinnulífið og samfélagið hér á Íslandi gera til skólakerfisins.

Ég spyr: Hvað hefur verið gert í þessum málefnum á þeim missirum sem liðin eru frá því að ný skólalöggjöf var samþykkt fyrir tæpum þremur og frá því að Háskóli Íslands og Kennaraháskólinn voru sameinaðir? Sjáum við fram á breyttar áherslur, nýjar áherslur, varðandi kennaramenntunina, varðandi kennarastarfið sem er okkur svo mikilvægt?