139. löggjafarþing — 91. fundur,  14. mars 2011.

efling kennarastarfsins.

520. mál
[18:18]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Efling kennarastarfsins er í mínum huga tvennt, að kennarar hafi ætíð tækifæri til endurmenntunar og símenntunar og síðan nýir og breyttir kjarasamningar sem skipta meginmáli að mínu mati. Kennarar verða að fara að líta á sig sem sérfræðinga og ekki láta meta menntun sína til mínútna og sekúndna. Það mun líka skipta meginmáli þegar kemur að því að hefja þessa stétt í hærri launastiga eins og hún á að vera en það að breyta kjarasamningum úr því sem þeir eru í dag, í að hætta að meta menntun okkar kennara í mínútum og sekúndum, mun kosta og þá kemur í ljós hvort Alþingi og sveitarfélögin eru tilbúin til að efla kennaramenntun, tilbúin til þess (Forseti hringir.) sem við erum að tala um, að gera kennarastarfið eftirsóknarverðara og bæta enn frekar í skólastarf.