139. löggjafarþing — 91. fundur,  14. mars 2011.

uppsagnir ríkisstarfsmanna.

550. mál
[19:11]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. fyrirspyrjanda, það er nokkur vandi að svara þessari fyrirspurn, aðallega vegna þess að í miðlægu launavinnslukerfi ríkisins eru ekki skráðar sérstaklega ástæður starfsloka. Því er ekki hægt að leita beinlínis upplýsinga þar um það hvort starfsmenn láta af störfum vegna aldurs, veikinda, af persónulegum ástæðum eða vegna uppsagnar vinnuveitenda og hvort sem þær uppsagnir væru þá vegna aðhaldsaðgerða eða af einhverjum öðrum ástæðum. Vissulega væri gagnlegt að hafa um þetta betur greindar upplýsingar en það verður að segjast eins og er að fjármálaráðuneytið ræður tæpast yfir mannafla til að bæta því á sig að afla allra þeirra gagna og það kallar á samstarf allra stofnana ríkisins þar sem hver og ein stofnun yrði að skrá og tilgreina þetta með skipulögðum hætti. Það er þó vel þess virði að athuga að koma á fastari skipan mála í þessum efnum. Þess vegna eru takmörk fyrir því, að minnsta kosti á þessu stigi, hversu nákvæmlega og sundurliðað hægt er að svara þessari annars fullkomlega réttmætu fyrirspurn hv. þingmanns öðruvísi en að leita þessara skýringa hjá hverri einustu stofnun.

Það sem er á hinn bóginn hægt að upplýsa eru breytingar á fjölda starfsmanna og stöðugilda hjá öllum ríkisstofnunum sem eru í hinu miðlæga launavinnslukerfi Fjársýslu ríkisins þó að vissulega beri aftur að hafa þann fyrirvara á að fækkun stöðugilda verður sem slík ekki eingöngu skýrð með uppsögnum eða aðhaldsaðgerðum því að auðvitað lætur árlega af störfum talsverður fjöldi vegna veikinda, aldurs, af persónulegum ástæðum o.s.frv.

Grófa myndin er sú að í byrjun árs 2009, sem hv. fyrirspyrjandi spyr um, störfuðu 21.900 einstaklingar hjá ríkinu í 17.900 stöðugildum. Nú í lok árs 2010 störfuðu hins vegar 21.000 manns hjá ríkinu í 17.400 stöðugildum. Stöðugildum hefur þar af leiðandi fækkað á fyrrgreindu tveggja ára tímabili um 545 og fækkunin er miklu mun meiri í störfum kvenna eða um 470 rúmlega á móti rúmlega 70 körlum. Þetta skýrist af því, og þá kemur að svari við þeirri spurningu, að fækkunin er langmest í heilbrigðisgeiranum, þ.e. á sjúkrahúsum, heilbrigðisstofnunum og í heilsugæslu. Þar hefur fækkunin orðið samtals upp á um 470. Hjá sýslumannsembættum og í störfum undir núverandi innanríkisráðuneyti er fækkunin upp á um 45 stöðugildi, í ráðuneytum hefur stöðugildum fækkað um 12, þar er frekari fækkun á leiðinni væntanlega vegna sameiningar ráðuneyta en staðan í árslok 2010 var sem sagt þessi. Svo er lítils háttar fækkun stöðugilda í framhaldsskólum, þó ekki umtalsverð. Í háskólum hefur hins vegar heldur fjölgað enda hafa fleiri verið þar við nám en nokkru sinni fyrr.

Þegar kemur að kjördæmum er fækkunin langmest í Reykjavík eða um 240 stöðugildi en minnst í Suðurkjördæmi um 40 og hin kjördæmin þrjú liggja þar á milli. Það er því ekki að sjá annað en að tiltölulega jöfn skipting sé á þessu miðað við fólksfjölda í viðkomandi kjördæmum, þó er ljóst að í Suðurkjördæmi og að nokkru leyti í Suðvesturkjördæmi virðist fækkunin þó vera hlutfallslega nokkru minni en hún er í Norðurkjördæmunum og í Reykjavík.

Ég er reyndar með á blaði þessa tölulegu greiningu betur fram setta og get afhent hv. fyrirspyrjanda það hér á eftir en þetta eru þær upplýsingar sem hægt er að draga með sæmilega auðveldum hætti út úr hinu samræmda launavinnslukerfi. Það kallar á talsvert mikla vinnu og undirbúning í raun ef á að greina þetta nákvæmlega niður sem auðvitað væri gagnlegt að hafa upplýsingar um og hv. fyrirspyrjandi spyr hér um.

Ég hygg sem sagt að þetta svari að minnsta kosti stóru myndinni hvað varðar flokkunina og hvað varðar útkomuna eftir kjördæmum og að langmest er fækkunin á heilbrigðissviðinu (Forseti hringir.) og 12 stöðugildi eru horfin út úr ráðuneytunum eins og áður sagði.