140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

lengd þingfundar.

[15:03]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Nú eru tvær vikur síðan lýst var eftir því á fundi þingflokksformanna að fram kæmi einhvers konar listi um forgang þingmála. Það bíða ein 50 eða 60 mál frá ríkisstjórninni meðferðar. Sá listi hefur ekki enn séð dagsins ljós. Við stefnum með þingið enn einu sinni í sama gamla farið þar sem verður unnið á næturnar, löggjöf verður afgreidd á færibandi og þingmenn hafa að stórum hluta ekki hugmynd um hvað þeir eru að samþykkja. Þetta eru óboðleg vinnubrögð.

Í skýrslu þingmannanefndarinnar var rækilega tekið á þessu og hvatt mjög til vandaðra og betri vinnubragða en þau tilmæli hafa einfaldlega verið höfð að engu í þinginu. Þangað til að betra skikki verður komið á afgreiðslu þessara mála mun ég ekki samþykkja svona snöggar breytingar á dagskrá þingsins, með fullri virðingu fyrir þeim þingmálum sem eru á dagskrá og þrátt fyrir þá sannfæringu mína að því fleiri mál sem eru afgreidd því betra. En það er betra að sleppa því að afgreiða þau en að afgreiða þau í einhverju hálfkáki.