141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

störf þingsins.

[10:44]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Fyrst að því síðasta, í umræðum um auðlindaákvæði hafa menn velt fyrir sér hvort auðlindaákvæði ætti að ganga á einkaeignarréttindi sem eru fyrir hendi eða hvort þjóðareignarhugtakið ætti eingöngu að ná til þeirra réttinda sem ekki njóta í dag verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar. Þetta tvennt getur alveg farið saman, annars vegar að virða þau réttindi sem varin eru af eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, og reyndar alþjóðlegum sáttmálum sem við eigum aðild að ef út í það er farið, og hins vegar að lýsa yfir þjóðareign sem felur þá í sér fullveldisrétt þjóðarinnar eða ríkisvaldsins yfir auðlindinni, rétt til þess að setja löggjöf um hana, verðleggja hana eða skattleggja hugsanlega með þeim hætti að auðlindin nýtist sem best í þágu þjóðarinnar. Þetta er hægt að gera án þess að ganga á einkaeignarréttindi sem eru til staðar. Ef menn ætla að breyta stjórnarskránni með þeim hætti að afnema eignarréttindi sem eru þegar til staðar er eins gott að menn tali skýrt um það. Þá er hægt (Gripið fram í.) að ræða það með skýrum hætti. (VBj: Hvaða eignarréttindi eru til staðar?)

Hæstv. forseti. Má ég svara spurningunni?

(Forseti (ÁRJ): Gefa ræðumanni tóm til að tala úr ræðustól.)

Ég vísa hins vegar til þess að í umræðum um þessi mál höfum við sjálfstæðismenn meðal annars varpað því fram hvort hægt væri að styðjast við auðlindaákvæði sem kom frá stjórnlaganefnd sem vann að málum 2010–2011. Við höfum líka vísað til eldri tillagna, m.a. tillögu auðlindanefndar frá árinu 2000 og tillögu sem reyndar formaður Sjálfstæðisflokksins og formaður Framsóknarflokksins fluttu í þinginu vorið 2007. Við höfum varpað fram ýmsum (Forseti hringir.) slíkum hugmyndum en við höfum ekki sett fram nein afdráttarlaus skilyrði í þeim efnum, ekki neina úrslitakosti. Við höfum lýst okkur reiðubúna að ræða þessa hluti.