141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[12:55]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir hans andsvar og ætla ekkert að draga dul á að við deilum áhyggjum af ríkisfjármálum. Ekki þó sérstaklega í höndum þessarar ríkisstjórnar, það get ég tekið fram, heldur af þeirri stöðu sem íslenski ríkissjóðurinn er í þrátt fyrir að mikið verk hafi verið unnið til að rétta hann af. Því er ekkert að leyna að þegar þingmenn lásu kostnaðarumsögnina um þetta frumvarp rak þá dálítið í rogastans því að hún er mjög harðorð, ég tek undir það. Það er líka mjög mikilvægt að hugsa til þess að verkefni stjórnmálanna næsta áratuginn, leyfi ég mér að fullyrða og lengur því það verður næsta kjörtímabil og þarnæsta, verður ríkisfjármálin. Þau verða mjög í forgrunni og auðvitað þurfa þau að alltaf að vera það en verkefnið verður að ná að greiða niður skuldir. Það er alvarlegt að hugsa til þess að í umsögninni hefur fjárlagaskrifstofan ekki litið til þess að bráðabirgðaákvæði eru í lögum sem falla úr gildi og munu að óbreyttu kalla á útgjöld vegna almannatrygginga í samræmi við þau lög sem við höfum sett á Alþingi.

Þegar ég hafði lesið greinargerð frá velferðarráðuneytinu um þá umsögn varð mér mun rórra. Það er náttúrlega hluti af þeirri vinnu sem þarf að fara fram í þinginu að fara yfir það. Ekki nema vilji sé til þess hjá nýju þingi að svíkja þau loforð sem voru gefin við niðurskurðinn 2009 og 2010 en ég vona að svo verði ekki. Fjárlagaskrifstofan gengur hér út frá raunveruleika sem er ekki alveg hinn lagalegi raunveruleiki. (Forseti hringir.)