141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[17:15]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Við erum hér komin til þess að ræða um frumvarp til laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning. Þetta er stórmál. Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram í dag að það er leitt að þetta mál komi fram á síðustu dögum þingsins þegar við ættum að vera að ræða mál sem koma til 2. og 3. umr. og til atkvæðagreiðslu, miðað við þann tíma sem eftir er. Þetta sýnir kannski líka ákveðið virðingarleysi gagnvart þessu stóra og mikla máli.

Það sem ég ætlaði líka að nefna, virðulegi forseti, í framhaldi af þeim orðaskiptum sem við hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir áttum áðan, er að ég held að dagskrá þessa þingfundar í dag segi miklu meira en margt annað um áherslu og stefnu núverandi stjórnvalda, ríkisstjórnar hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur, ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna.

Hér fyrst á dagskrá fundarins eru mál sem við erum að mörgu leyti mjög sammála um. Sagt hefur verið að eitt af einkennum íslensks samfélags sé hversu sammála við séum um mikilvægi velferðarinnar. Við verðum samt að hafa í huga hvað hún kostar og við framsóknarmenn getum verið endalaust hissa á því að menn virðast ekki átta sig á því að það þarf náttúrlega að hafa tekjur til að borga fyrir velferðina. Á eftir þessu máli á dagskrá er frumvarp til laga um slysatryggingar almannatrygginga og síðan kemur annað útgjaldafrumvarp sem við framsóknarmenn getum að sjálfsögðu tekið undir frá hæstv. menntamálaráðherra, sem stendur hér í salnum. Þá kemur loksins á dagskrá frumvarp þar sem ætlunin er að reyna að tryggja að við sköpum störf, störf sem geta síðan skilað af sér tekjum og þar af leiðandi skatttekjum í mjög tóma sjóði ríkisins. Maður hefði haldið að forgangsröðunin ætti að vera sú að skapa störfin fyrst og eyða síðan fjármununum. Hér stöndum við hins vegar og höfum rætt meira og minna í allan dag frumvarp til laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning.

Forgangsröðunin endurspeglast að vissu leyti líka í þeirri vinnu sem var unnin til að undirbúa þetta frumvarp. Hæstv. velferðarráðherra skipaði starfshóp og í honum eru náttúrlega fulltrúar þingflokkanna, einn fulltrúi frá Landssambandi eldri borgara, tveir frá Öryrkjabandalagi Íslands, einn frá Landssamtökunum Þroskahjálp, tveir frá Alþýðusambandi Íslands og einn frá Samtökum atvinnulífsins, ásamt fleirum hagsmunasamtökum fyrir launþega. Formaður starfshópsins er skipaður af velferðarráðherra.

Ég get tekið undir það sem kom fram í máli hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur að maður saknar þess sárlega að sjá engin merki um að sinnt hafi verið einhvers konar samráði eða samstarfi við fjármálaráðuneytið. Maður sér líka hvernig hefur verið staðið að skilum á greinargerðum með tillögum starfshópsins. Hópurinn skilaði af sér í október 2012. Með leyfi forseta, segir í greinargerðinni:

„Formaður starfshópsins afhenti velferðarráðherra greinargerð með tillögu starfshópsins í október 2012 þar sem farið er yfir niðurstöðu hópsins, helstu verkefni í nánustu framtíð, áhrif tillögunnar á samspil lífeyrissjóða og almannatrygginga og áhrif tillögunnar fyrir ólíka hópa ellilífeyrisþega.“

Síðan kemur fram aðeins seinna í textanum:

„Var skýrslu um kostnaðaráhrif tillögu starfshópsins til lengri tíma, eða til ársins 2048, skilað í nóvember 2012.“ — Þessi skýrsla kom sem sagt mánuði eftir að starfshópurinn sjálfur var búinn að skila af sér.

Það kemur einmitt skýrt fram í kostnaðarmati fjármála- og efnahagsráðuneytisins að verði frumvarpið að lögum muni það leiða af sér umtalsverð áhrif á útgjöld hins opinbera.

Ég hefði því einmitt talið ástæðu til þess, og væri ástæða til að beina því til forseta, að skynsamlegra hefði verið að byrja á því að ræða um atvinnuuppbygginguna á Bakka í Norðurþingi til þess að við gætum aflað þeirra tekna sem við viljum gjarnan öll eyða í almannatryggingakerfið okkar, handa þeim sem hafa oft minnst á milli handanna. Það endurspeglast svo sannarlega í ályktun okkar framsóknarmanna þar sem við leggjum mesta áherslu á að tryggja öflugt atvinnulíf og taka á því sem er helsti vandi okkar Íslendinga, skuldavandanum, svo við getum farið í alvöruuppbyggingu.

Fulltrúi okkar í þessum hópi talaði fyrir því að fara þyrfti í endurskoðun á almannatryggingakerfinu. Við erum öll sammála um að mikilvægt sé að við séum með einfaldara og sanngjarnara almannatryggingakerfi en við búum við núna. Í ljósi þess hefði ég gjarnan viljað að við mundum skoða almannatryggingakerfið eða lífeyriskerfi okkar á heildstæðan máta. Ég tel að þetta mál sé lagt fram til kynningar og tek undir að það sé engan veginn hægt að þingið nái að klára það á þeim stutta tíma sem eftir er.

Hér er talað um að í raun og veru séu tvær stoðir lífeyriskerfisins á Íslandi. Við erum annars vegar með almenna lífeyriskerfið sem er sjóðsöfnunin og svo erum við með almannatryggingakerfið. Ég vil hins vegar bæta við, eins og kom fram í máli hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur í andsvari við mig, að þriðja stoðin er líka til staðar, en það er séreignarsparnaðurinn. Það er mjög mikilvægt að skoða samspilið á milli þessara þátta og hvernig við getum tryggt að það sé sem skynsamlegast. Hverjar eru áherslurnar? Það má ekki vera þannig að ákvarðanir sem teknar eru á Alþingi, eins og ákvarðanir sem voru teknar 2007 og 2008 og hv. þm. Pétur Blöndal hefur ítrekað bent á, leiði til þess að stoðirnar undir almenna lífeyrissjóðakerfinu okkar bresti vegna þess að menn sjái svo lítinn tilgang í því að borga hátt hlutfall af tekjum sínum, bæði beint og í gegnum atvinnurekendur, í lífeyrissjóðakerfið. Þegar kemur að útgreiðslum úr almannatryggingakerfinu er skerðingin svo mikil að fólk sér ekki ástæðu til að vera að borga aukalega í lífeyrissjóðakerfið.

Þetta er það sem ég hef fengið að heyra frá þeim sem hafa spurt mig um þetta kerfi og þá einkum frá eldri konum. Þetta eru konur sem hafa axlað ábyrgðina á því að sinna fjölskyldunni, hafa oft þurft að taka sér hlé á vinnumarkaði og hafa síðan, eftir að hafa komið upp börnum sínum, farið aftur út á vinnumarkaðinn. Þær hafa talið að það ætti að skila þeim einhverjum aukatekjum. En þegar kemur að því að fara á eftirlaun sjá þær að það hefði jafnvel verið betra fyrir þær að sleppa því að vinna. Ég trúi ekki að þetta geti verið í samræmi við þá stefnu sem núverandi stjórnarflokkar hafa talað fyrir. Þeir hafa talað fyrir kynjaðri hagstjórn. Þeir hafa talað fyrir því að mikilvægt sé að huga einmitt að stöðu karla og kvenna og jafnréttismálum í öllum ákvörðunum sem eru teknar á vegum stjórnvalda.

Fyrir 32. flokksþing framsóknarmanna var ég beðin um að leiða vinnu við mótun á nýrri velferðarstefnu fyrir Framsóknarflokkinn. Að sjálfsögðu voru málefni aldraðra hluti af því. Það var mjög margt áhugavert sem kom fram og sem maður lærði í þeirri vinnu. Meðal annars var bent á mikilvægi atvinnu til að draga úr örorku. Það hefur sýnt sig að mjög mikil tengsl eru á milli aukins atvinnuleysis og örorku. Helstu orsakir hér á landi fyrir örorku eru stoðkerfissjúkdómar og geðraskanir. Atvinnuleysi á Íslandi hefur verið sögulega mjög lágt. Í fyrra var hins vegar atvinnuleysið 5,6%, en til samanburðar var atvinnuleysi á sama tíma í Evrópusambandinu tæp 11%.

Það hefur orðið mikil fjölgun öryrkja á Íslandi. Bent hefur verið á að núverandi kerfi sé ekki nægilega atvinnuhvetjandi og því þurfi að breyta. Hið sama má segja um það hvert kerfið hefur verið að þróast varðandi ellilífeyrinn. Skilaboðin hafa í raun og veru verið þau að ekki borgi sig að vinna, það eigi ekki að borga sig að vinna og fólk er hvatt til þess að vinna ekki. Í skýrslu Samtaka atvinnulífsins um stöðuna á Íslandi árið 2050 er bent á að fæðingartíðni hér á Íslandi hafi verið frekar há og þjóðin frekar ung en það muni breytast mjög mikið á næstu áratugum. Þær ákvarðanir sem við tökum í dag verða að endurspegla þær staðreyndir.

Ef ég fæ að vitna hér í skýrslu Samtaka atvinnulífsins um sýn samtakanna á það hvernig Ísland verður árið 2050 segir þar, með leyfi forseta:

„Hlutfallsleg fjölgun aldraðra og fækkun fólks á vinnualdri og barna mun takmarka hagvöxt og draga úr lífskjarabata, skapa þrýsting á hækkandi skattbyrði, valda viðvarandi vinnuaflsskorti, þrýsta á aukna atvinnuþátttöku eldra starfsfólks, stuðla að jöfnum tækifærum kynja á vinnumarkaði, knýja á um breyttar aðferðir við fjármögnun heilbrigðisútgjalda og krefjast aukinnar skilvirkni í menntakerfinu.“

Við segjum í skýrslu okkar að við alla ákvarðanatöku sem við tökum um velferð framtíðarinnar verðum við að horfa til þessara staðreynda. Þetta eru staðreyndirnar. Þetta er það sem við sjáum í kringum okkur því aðrar vestrænar þjóðir eru þegar farnar að finna fyrir þessari þróun.

Ég legg því áherslu á að við vinnslu þessa máls og síðan þegar áfram verður unnið að þessu málefni hugum við að því sem við þurfum að gera samhliða því að tryggja velferð fólks. Við erum öll svo sammála um að við verðum að tryggja fólki sem þarf á aðstoð velferðarkerfisins að halda mannsæmandi kjör. En það byggist alltaf á því sem við framsóknarmenn segjum: Við verðum að byggja upp vinnuna og tryggja vöxtinn. Þannig borgum við fyrir velferðina.