141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

slysatryggingar almannatrygginga.

635. mál
[18:59]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki upplýsingar um hversu stórt hlutfall af bótum er greitt í einu lagi, en þó er vitað að menn hafa verið að gera upp — af því að hér er horft einmitt til skaðabótalaganna þá hafa menn fengið dæmdar skaðabætur og fengið greiðslur.

Ég hef haft meiri áhyggjur af því að þegar menn fá slíkar bætur, sem eru auðvitað fyrir skaða, hafi þær bætur í mörgum tilfellum verið að skerða lífeyri þannig að sá varasjóður sem þetta átti að vera upphaflega hefur ekki nýst sem slíkur. Ég hef haft meiri áhyggjur af þeim hlutanum — að menn hafi í raunveruleikanum ekki mátt eiga verulega háa sjóði sem hafa átt að tryggja jafna stöðu viðkomandi einstaklings inn í framtíðina — en því að þar væri um að ræða einhvern vinahóp eða aðra sem legðust á viðkomandi einstaklinga til að eyða með þeim bótunum. Ég treysti nú fólki ágætlega til að taka ákvörðun um hvernig það ráðstafar lífeyri sínum eða skaðabótum. En á móti kemur, eins og ég segi, að það þarf auðvitað að vera tryggt að þær bætur séu þannig að þær skerði ekki annan lífeyri og það sé gert upptækt með þeim hætti.