141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

slysatryggingar almannatrygginga.

635. mál
[19:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Frumvarpið sem við ræddum hér áðan um almannatryggingar var aðallega sniðið að breytingum á almannatryggingum gagnvart ellilífeyri. Þar hefur fundist ákveðin lausn til einföldunar en ekki hjá öryrkjum. Ég tel mjög áríðandi að menn vindi sér í að finna góða lausn fyrir öryrkja því að það er eiginlega miklu brýnna. Af hverju segi ég það? Vegna þess að í dag erum við með örorkumat sem miðast við 75% eða meira, þá fær maður fullan örorkulífeyri, með skerðingum ef viðkomandi er með lífeyri frá lífeyrissjóði o.s.frv. Þeir sem eru með 74% mat eða minna fá mjög lítið, þeir fá örorkutryggingu eða örorkubætur sem er miklu lægri upphæð og ef þeir eru undir 50% fá þeir ekki neitt, þ.e. frá almannatryggingum. Reglurnar eru dálítið öðruvísi hjá lífeyrissjóðunum.

Ég tel mjög brýnt að búa til kerfi sem ekki er svona letjandi fyrir endurhæfingu öryrkja. Það er nefnilega ljóst að ef maður sem er metinn 75% öryrki endurhæfist þannig að hann verði metinn 74% öryrki tapar hann miklu. Þetta vita allir. Þetta veit læknirinn, þetta veit viðkomandi bótaþegi, þetta vita tryggingarnar og þetta vita allir. Þess vegna endurhæfast svo óskaplega fáir. Það er nánast útilokað að endurhæfa fólk í dag í núverandi kerfi, það er bara ekki hægt. Mér finnst mjög slæmt, herra forseti, að fólk sé sett í þessa stöðu. Mér finnst mjög slæmt að kerfið skuli vinna gegn því að virkja öryrkja.

Það er í gangi heilmikil starfsemi þar sem verið er að endurhæfa fólk, VIRK, sem ég átti ákveðinn þátt í að komst á laggirnar, en kerfið sjálft vinnur gegn endurhæfingu. Það þarf að vinda bráðan bug að því að menn fái örorkulífeyri miðað við getu. Það verði metið hvaða getu menn hafi til að vinna og reiknað með því að þeir vinni að því marki og síðan fái þeir örorkulífeyri fyrir vangetuna, það sem eftir stendur. Maður sem er metinn með 60% getu fær þá 40% af fullum lífeyri og hann má vinna 60% af fullu starfi. Þetta held ég að sé mjög brýnt að taka upp. Ég vona að menn verði ekki í fjöldamörg ár eða áratugi að finna lausn á þessu vegna þess að á meðan höldum við áfram að, hvað á ég að segja, búa til öryrkja, þeir geta varla endurhæfst. Þess vegna fjölgar að mínu mati öryrkjum svo mikið.

Nú held ég að nánast enginn vilji vera öryrki, það held ég að sé afskaplega sjaldgæft, en þegar menn eru hins vegar komnir inn í þetta kerfi þá neyðast þeir eiginlega til að vera í því áfram. Þessu held ég að sé mjög brýnt að snúa við og þetta mál sem hér er um að ræða snýr einmitt að þessu. Það snýst um slysatryggingar almannatrygginga þar sem verið er að tryggja ákveðna hópa og ákveðnar starfsstéttir fyrir tjóni vegna slysa á vinnustöðum, t.d. um borð í skipum. Ef menn eru að vinna eru þeir tryggðir, en þetta tengist hinu sem eru skaðabótalögin. Mér finnst að líta þurfi á þetta allt í heild sinni, öryrki er öryrki hvort sem hann er metinn sem öryrki vegna skaðabótalaganna eða vegna slysatrygginga almannatrygginga, vegna einhvers sjúkdóms eða annars.

Við þurfum að búa til kerfi sem gerir að verkum að við metum getu öryrkja til að vinna, hann megi vinna í samræmi við þá getu og við hvetjum hann til þess og stuðlum að því að hann geti unnið. Þannig er hægt að fækka öryrkjum og fleiri fá verkefni í atvinnulífinu við sitt hæfi. Þetta frumvarp tengist því og ég skora á hv. velferðarnefnd að skoða þetta í heild sinni.