141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[20:01]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir að fallist var á að ræða þessi mál saman því að þau eru mjög samhangandi. Það hefði auðvitað komið til greina að fara fram með þetta í einu frumvarpi þó að annars vegar sé um sjálfstæð heimildarlög að ræða og hins vegar lög sem hafa meiri tengingu við lög um ívilnanastarfsemi.

Þá vík ég fyrst að frumvarpi á þskj. 1108 sem er 632. mál. Í því frumvarpi er lagt til að þeim ráðherra sem fer með atvinnumál verði heimilt að undirrita fjárfestingarsamning fyrir hönd ríkisins við þýska félagið PCC SE og íslenskt dótturfélag þess, PCC BakkiSilicon hf., um sérstakar ívilnanir vegna byggingar og reksturs kísilvers í landi Bakka í Norðurþingi. Í frumvarpinu er gengið út frá því að starfsemi félagsins skuli að öðru leyti vera í samræmi við íslensk lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Kveðið er á um að uppbygging, túlkun og framkvæmd þessa samnings sem gerður var innan ramma laganna skuli lúta lögsögu íslenskra laga.

Fyrirhuguð fjárfesting vegna byggingar kísilvers á Bakka er áætluð um 170 milljónir evra eða sem nemur um 28 milljörðum íslenskra króna og er áætlað að sú fjárfesting dreifist yfir þrjú ár. Eru þá að sjálfsögðu ótaldar fjárfestingar í virkjunum, í flutningskerfi, innviðum og ýmiss konar smærri fjárfestingum sem fylgja munu í kjölfarið þannig að samanlagt umfang þessara framkvæmda verður umtalsvert.

Miðað er við að fyrsti áfangi kísilversins taki til starfa á árinu 2016 með 33 þús. tonna framleiðslugetu á ári. Kísilverið mun þurfa í þann áfanga um það bil 52 megavött af orku og nota um það bil 456 gígavattstundir á ári. Veruleg umsvif fylgja rekstri kísilversins. Ef miðað er við 33 þús. tonna framleiðslu þarf um 180 þús. tonn af hráefni árlega. Flutningur hráefnis og afurða verður með skipum til og frá Húsavíkurhöfn og síðan áætlar félagið að tvöfalda framleiðslugetu kísilversins fyrir árið 2020. Fjöldi starfsmanna við fyrsta áfanga kísilversins verður í kringum 127 manns en verður nálægt 200 þegar kísilverið yrði fullbyggt með 66 þús. tonna framleiðslu.

Þessi áform eru að sjálfsögðu háð og ráðast af ýmsum öðrum þáttum en fjárfestingarsamningi einum við ríkið. Þyngst vegur þar fjármögnun og fjárfestingarkostnaður félagsins en jafnframt þurfa aðrir samningar að ná fram að ganga. Hér er meðal annars átt við lokafrágang og samning við Landsvirkjun um raforku, Landsnet um orkuflutning, lóðarsamning við Norðurþing og hafnarsamning við hafnarsjóð Norðurþings. Að auki verður fjárfestingarsamningurinn gerður með þeim fyrirvara að framleiðslan uppfylli umhverfismat Skipulagsstofnunar og að samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, liggi fyrir um lögmæti þess stuðnings sem verkefnið fær.

Skýrsla um mat á umhverfisáhrifum verksmiðjunnar liggur fyrir og er að fara í opið kynningarferli á næstu dögum. Um nokkurt skeið hefur legið fyrir áhugi á því að byggja upp fjölþætta starfsemi á Bakka fremur en að leggja áherslu á eitt stórt, sérhæft iðnaðarverkefni. Fjölþættari iðnaðarstarfsemi kemur með nýja þekkingu inn í landið og dreifir betur áhættunni af orkusölunni og fellur betur að orkuöflunarmöguleikum svæðisins. Til að opna fyrir slíkan möguleika á uppbyggingu á Bakka var ljóst að einkum og sér í lagi þyrfti til að koma stuðningur við fyrsta verkefnið þannig að það gæti farið af stað. Í þeim skilningi má segja að fyrsta fjárfestingarverkefnið sé nokkurs konar ísbrjótur sem greiði götu fyrir síðari verkefni og frekari uppbyggingu. Þar af leiðandi er eðlilegt og nauðsynlegt að það njóti stuðnings enda er framganga þess forsenda frekari uppbyggingar.

Stjórnvöld hafa unnið þétt með sveitarfélögum á svæðinu til að stuðla að því að opna þetta fyrsta verkefni. Fyrirhuguð uppbygging innviða á Bakka sem lögð er til með frumvarpi sem ég mæli fyrir á eftir mun ekki einungis nýtast fyrirtækinu PCC SE og frekari stækkunarmöguleikum þess heldur öllum öðrum fyrirtækjum sem líkleg eru til að koma á eftir.

Í viðræðum fulltrúa ríkisins og Norðurþings við PCC SE kom skýrt fram að tilteknar ívilnanir væru ein af nauðsynlegum forsendum þess að fyrirtækið mundi ráðast í uppbyggingu kísilvers á Bakka sem og hefur lengi legið fyrir að tilteknar fjárfestingar í innviðum þyrftu að koma til. Miðað er við að félagið eigi rétt á almennum ívilnunum í samræmi við rammalöggjöf um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi, samanber lög nr. 99/2010, en rétt er að taka fram að þau lög eru nú til meðferðar á Alþingi og bíður 3. umr. frumvarp sem breytir nokkuð innihaldi þeirra laga tímabundið þar sem felldar eru út úr lögunum heimildir til að greiða svonefnda stofnstyrki en í staðinn er rýmkaður nokkuð ramminn til að veita skattalegar ívilnanir á upphafstíma starfseminnar.

Í frumvarpi þessu er auk þess lagt til að félaginu verði veittar tilteknar sérstakar ívilnanir samkvæmt sérákvæðum sem er þá að finna í þessu frumvarpi. Eru þær í samræmi við sameiginlega viljayfirlýsingu PCC SE, ríkisstjórnarinnar, Norðurþings og hafnarsjóð Norðurþings sem undirrituð var þann 15. febrúar sl. Mun ég gera betur grein fyrir þeim frávikum frá sköttum og gjöldum sem ríkið hyggst veita félaginu, og sömuleiðis sveitarfélagið, verði frumvarp þetta að lögum. Eru þau frávik á hinn bóginn verulega minni ef borið er saman við lögfestingu samninga vegna fyrri verkefna, t.d. samanber lög um álver í Helguvík, á Grundartanga og Reyðarfirði.

Með frumvarpinu er lagt til að félagið njóti tryggingar fyrir 15% tekjuskattshlutfalli í stað 18% eða 20% eins og verið hefur í flestum fyrri ívilnunarsamningum. Þó er rétt að taka fram að einir þrír samningar eru til staðar með 15% tekjuskattshámarki. Með frumvarpinu er jafnframt lagt til að félagið greiði engin gjöld af stimpilskyldum skjölum sem félagið gefur út eða stofnar til í tengslum við uppbyggingu viðkomandi fjárfestingarverkefnis, að félagið geti notið allt að 50% afsláttar af fasteignagjöldum og verði undanþegið almennu tryggingagjaldi.

Vegna misskilnings sem virðist hafa gætt er rétt að leggja áherslu á að hér er eingöngu um að ræða hinn almenna þátt tryggingagjaldsins en ekki atvinnutryggingagjaldið eða gjald í Ábyrgðasjóð launa. Þetta fyrirkomulag hefur engin áhrif á réttarstöðu starfsmanna eða tryggingar þeirra þar sem um er að ræða afslátt af þeim hluta tekjustofnsins sem rennur beint til ríkisins. Þessi frávik frá sköttum og gjöldum geta gilt að hámarki í 14 ár frá undirritun fjárfestingarsamnings en þó aldrei lengur en í tíu ár frá því að skattskylda eða gjaldskylda myndast hjá félaginu þannig að hér er um að ræða stuðning á uppbyggingartíma verkefnisins en ekki til langs tíma, eins og var tíðkað í eldri lögum, sérlögum um fjárfestingarumhverfi stóriðju. Í gildi eru samningar sem voru upphaflega til 20 ára og jafnvel með framlengingu í önnur 20 ár þannig að slíkir ívilnunarsamningar gátu þá tekið til jafnvel 40 ára starfrækslu iðjuversins.

Það er áætlað að ríkissjóður veiti með þessu afslátt upp á um 100–150 millj. kr. að meðaltali á ári hverju meðan ívilnana nýtur við. Á móti myndast að sjálfsögðu umtalsverður ábati fyrir ríkissjóð á uppbyggingartímanum og eftir að rekstur kísilversins hefst, m.a. vegna mikilla umsvifa sem fylgja fyrirtækinu á ýmsum sviðum og skattgreiðslna starfsmanna. Er enginn vafi á því að útkoman úr dæminu er ríkinu verulega hagstæð þegar allt er lagt saman.

Í öðru lagi er lagt til í frumvarpinu að ríkissjóður veiti félaginu PCC BakkiSilicon hf. fjárstuðning, að fenginni heimild í fjárlögum. Það er annars vegar vegna undirbúnings iðnaðarlóðar félagsins í landi Bakka þar sem hún er á þeim hluta sem félagið mun staðsetja sig í umtalsverðum bratta, er ójöfn og þarf grófjöfnunar við áður en hún kemst í byggingarhæft ástand. Hins vegar verða nýttar heimildir gildandi laga til að greiða tiltekna styrki vegna þjálfunar starfsfólks. Samtals getur þessi stuðningur numið að hámarki um 760 millj. kr.

Efnahagsskrifstofa fjármála- og efnahagsráðuneytisins hefur metið þjóðhagsleg áhrif fyrirhugaðra framkvæmda við kísilver í landi Bakka og eru niðurstöður greiningarinnar að framkvæmdirnar muni hafa jákvæð áhrif á þjóðarbúið þótt um sé að ræða fremur smáa fjárfestingu samanborið við stóriðju á borð við álver. Mestu jákvæðu áhrifin verða þó að sjálfsögðu fyrir samfélagið á norðaustanverðu landinu, en Byggðastofnun telur að fyrirhugaðar fjárfestingar vegna uppbyggingar iðnaðarsvæðisins hafi mikil og jákvæð áhrif á samfélagið sem tilheyrir Þingeyjarsýslum, sérstaklega með tilliti til íbúaþróunar á svæðinu og samsetningar íbúa. Þannig er gert ráð fyrir því að án iðjuvera yrði íbúafjöldinn á norðausturhorninu kominn niður í 4.522 íbúa árið 2022 ef ekkert sérstakt gerðist í atvinnumálum svæðisins. Ef fyrsti áfangi álversins kemst til framkvæmda er íbúafjöldinn árið 2022 áætlaður 5.275 sem er fjölgun um 753 íbúa, þ.e. um 16,7%. Fyrirhugaðar framkvæmdir og íbúafjölgun þeim tengd er sveitarfélaginu afar mikilvægt til að styrkja tekjugrunn þess og framtíðarhorfur, bæði í formi skatttekna og þjónustugjalda. Með bættri afkomu verður sveitarfélagið í annarri og betri stöðu til að halda uppi góðri þjónustu við íbúana o.s.frv.

Þær ívilnanir sem hér eru taldar upp ber að skilgreina sem ríkisaðstoð í samræmi við 61. gr. EES-samningsins og verður Eftirlitsstofnun EFTA því tilkynnt um þá ríkisaðstoð sem telja megi að felist í fjárfestingarsamningnum með sama hætti og gert var til dæmis vegna álveranna á Grundartanga og Reyðarfirði.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu leyfi ég mér að leggja til að þessu frumvarpi verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.

Þá mæli ég fyrir frumvarpi til laga um heimild til handa ráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að fjármagna uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka í Norðurþingi. Þetta er á þskj. 1109, mál nr. 633.

Í frumvarpinu er lagt til að ráðherra sem fer með atvinnumál verði veitt tímabundin heimild, fyrir hönd ríkissjóðs, til að fjármagna og þar með undirrita samninga um þátttöku ríkisins vegna uppbyggingar á nauðsynlegum innviðum til að iðnaðarsvæði geti risið í landi Bakka í Norðurþingi. Í því felst annars vegar að semja við Vegagerðina um fjármögnun á vegtengingu milli Húsavíkurhafnar og iðnaðarsvæðisins á Bakka að fjárhæð allt að 1.800 millj. kr. og hins vegar að semja við hafnarsjóð Húsavíkur um fjármögnun á stækkun og dýpkun hafnar að fjárhæð 819 millj. kr. Samkvæmt frumvarpinu er því heildarframlag ríkissjóðs til framkvæmdanna um 2,6 milljarðar kr. miðað við verðlag í lok árs 2012. Framlagið til hafnarframkvæmdanna verður í formi víkjandi láns sem að sjálfsögðu kemur til endurgreiðslu þegar tekjur hafnarinnar gera henni kleift að hefja endurgreiðslu lánsins.

Heimildin er að sjálfsögðu bundin þeirri forsendu að vinna hefjist ekki við umræddar framkvæmdir fyrr en undirritaðir hafa verið nauðsynlegir samningar, svo sem fjárfestingarsamningur, og eftir atvikum að fyrir liggi að undirritaðir samningar milli fyrirtækisins sem hyggst reisa og reka atvinnustarfsemi á Bakka og Landsvirkjunar og Landsnets og að fyrirvarar séu brott fallnir. Hafi uppbygging samkvæmt framansögðu ekki hafist fyrir 1. janúar 2015 fellur niður heimild samkvæmt frumvarpi þessu.

Eins og kunnugt er hefur lengi verið til athugunar að nýta jarðhitaauðlindirnar í Þingeyjarsýslum til atvinnuuppbyggingar og sporna þannig meðal annars gegn viðvarandi fækkun starfa og tilheyrandi fólksfækkun í héraðinu. Þá hefur Landsvirkjun kynnt opinberlega að helsta áhersla fyrirtækisins í orkusölumálum sé að selja orku af háhitasvæðum í Þingeyjarsýslum til iðnaðarfyrirtækja sem vilja byggja upp framleiðslustarfsemi á svæðinu. Þær athuganir sem liggja til grundvallar frumvarpinu sýna að fjárfestingin hefur bæði jákvæð áhrif á hagvöxt og velferð samfélagsins á Húsavík og í nágrenni þess. Þá kemur fjárfestingin til með að nýtast öllum fyrirtækjum sem hafa áhuga á að koma upp starfsemi á Bakka eða þjóna þeirri atvinnustarfsemi sem þar getur orðið til í framtíðinni.

Þá verður hagsmuna almennings gætt þar sem áfram verður tryggt aðgengi að útivist og náttúruminjum á Bakkahöfða samkvæmt deiliskipulagi sem kynnt verður íbúum á næstu dögum. Forsaga fyrirhugaðrar iðnaðaruppbyggingar í Þingeyjarsýslum á sér langa sögu og margir hafa komið þar að málum. Rekja má söguna að minnsta kosti aftur til níunda áratugar síðustu aldar þegar fyrstu hagkvæmnisathuganir voru gerðir um kosti þess að reisa verksmiðju með nýtingu jarðhita frá Þeistareykjum.

Á árinu 1998 hófst formlegt samstarf milli Þingeyinga og Eyfirðinga um að kanna orkugetu svæðisins til atvinnuuppbyggingar í héraðinu. Samstarfið leiddi til þess að iðnaðarráðuneytið, Húsavíkurbær og Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga undirrituðu á árinu 2002 samkomulag um gerð frummats um staðsetningu orkufreks iðnaðar. Niðurstöður frummatsins sem kynnt var á árinu 2003 sýndu að Bakki við Húsavík væri hagkvæmasti kosturinn. Við ákvörðunina var horft til jarðfræði, vistfræði umræddra svæða, landfræðilegra aðstæðna, hugsanlegra fornleifa, veðurfars, siglingaleiða, hafnaraðstæðna svo og, og ekki síst, orkuframleiðslu, orkuflutningsmöguleika og almennra samgangna. Enn fremur var lagt mat á samfélagsleg og efnahagsleg áhrif, svo sem íbúasamsetningu viðkomandi sveitarfélaga, vinnumarkaðar og áhuga íbúa á hugsanlegum framkvæmdum.

Á grundvelli frummatsins gengu iðnaðarráðuneytið, Húsavíkurbær og Alcoa frá sameiginlegri viljayfirlýsingu um uppbyggingu álvers í landi Bakka í maí árið 2006. Áform Alcoa um álver gengu hins vegar ekki eftir en viðræður um uppbyggingu á svæðinu fyrir orkufrekan iðnað héldu þó áfram. Í október 2009 undirrituðu iðnaðarráðherra og fulltrúar Skútustaðahrepps, Þingeyjarsveitar og Norðurþings viljayfirlýsingu um að vinna að því að leita að fjárfestum til að byggja upp atvinnustarfsemi á Bakka. Við þá vinnu komu fleiri að borðinu og hafa nú viðræður staðið yfir við þrjá líklega fjárfesta um iðnframleiðslu sem er minni í sniðum en fyrri áform um byggingu álvers. Slík minni verkefni eru þó ekki síður áhugaverð til að skapa fjölbreytileika í atvinnustarfsemi hér á landi auk þess sem þau falla mun betur að núverandi afstöðu orkufyrirtækisins um að taka í notkun í áföngum jarðvarmavirkjanir á háhitasvæðunum í Þingeyjarsýslum.

Viðræður eru nú mjög langt komnar við þýska félagið PCC SE um uppbyggingu á kísilveri eins og rakið er í athugasemdum með frumvarpi því sem ég mælti fyrir áðan og er lagt fram samhliða þessu. Ljóst er að ekki verður úr þeirri atvinnuuppbyggingu eða af annarri sambærilegri atvinnustarfsemi á svæðinu nema stjórnvöld tryggi fyrirtækjum og rekstraraðilum fullnægjandi vega- og hafnasamgöngur og þjónustu. Er það í sjálfu sér óháð stærð og fjölda fyrirtækja. Norðurþing hefur ekki fjárhagslega burði til að standa eitt undir fjárfrekum fjárfestingum eins og hér um ræðir og er því óhjákvæmilegt að ríkissjóður taki nokkurn þátt í að fjármagna verkefnin.

Eins og að framan greinir er því lagt til í frumvarpinu að ráðherra verði veitt heimild að fengnu samþykki í fjárlögum til að semja fyrir hönd ríkissjóðs um þátttöku ríkisins í innviðaframkvæmdum tengdum uppbyggingu iðnaðarsvæðisins á Bakka að fjárhæð allt að 2,6 milljarðar kr.

Mikilvægt er að fram komi og lögð sé áhersla á að fjárfestingin mun að sjálfsögðu ekki aðeins nýtast þessum framkvæmdum, heldur er hún frumforsenda þess að þetta verkefni geti, sem önnur, orðið að veruleika á svæðinu og að fjárfest sé þar með í atvinnuskapandi og arðvænlegum verkefnum. Hér er því um fjárfestingu í innviðum til framtíðar að ræða og er nauðsynleg forsenda þess að brjótast út úr þeirri stöðnun sem við höfum staðið frammi fyrir í fjárfestingum að þessu leyti.

Verði frumvarpið að lögum og samþykki fæst á fjárlögum er um tvær aðskildar framkvæmdir að ræða. Í fyrsta lagi þarf að koma upp vegtengingu milli hafnar og iðnaðarsvæðisins í landi Bakka. Vegagerðin lagði mat á kosti og galla nokkurra vegaleiða að iðnaðarsvæðinu. Niðurstaðan varð sú að helst komi til greina að byggja göng í gegnum Húsavíkurhöfðann til að tryggja viðunandi veghalla og til að lágmarka umhverfisáhrif og hljóðmengun. Þá tók Vegagerðin mið af því að hægt væri að nýta áfram höfðann til uppbyggingar, svo sem í ferðaþjónustu, sem ekki yrði með sama hætti mögulegt ef farin yrði sú leið að skera veg í gegnum utanverðan höfðann. Áætlað er að framkvæmdin kosti um 1,8 milljarða kr. samkvæmt frummati Vegagerðarinnar. Gert er þá ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á árinu 2014 og ljúki á árinu 2016, samanber það sem áður sagði um upphafsár starfsemi verksmiðjunnar. Þar af er gert ráð fyrir að kostnaður vegna rannsókna og útboðsgagna að fjárhæð allt að 100 millj. kr. gæti fallið til á síðustu mánuðum þessa árs, að því tilskildu að takist hafi að semja um fjárfestinguna og ljóst sé að af framkvæmdum verði.

Í öðru lagi þarf að stækka og dýpka Húsavíkurhöfn svo hún geti tekið við flutningaskipum af þeirri stærð sem krafist er vegna framleiðslu á kísilmálmi. Áætlað er að framkvæmdir við höfnina kosti nálægt 1,4 milljörðum kr. með fjárfestingarkostnaði. Í frumvarpinu er lagt til að ríkissjóði verði veitt heimild til að gefa út víkjandi skuldabréf án vaxta til hafnarsjóðs Húsavíkur sem nemi um 60% af heildarkostnaði framkvæmdarinnar, þ.e. rúmlega 800 millj. kr. Hafnarsjóður mun hefja greiðslur á láninu þegar sjóðurinn hefur myndað nægilegar tekjur til að standa undir rekstri sjóðsins. Ræðst það fyrst og fremst af því hversu fljótt fyrirtækið PCC SE hefur stækkun kísilversins og eftir atvikum hvort fljótlega bætast við fleiri verkefni með samningum við fjárfesta á svæðinu.

Virðulegi forseti. Eins og að framan er rakið er hugmyndin um nýtingu á háhitaorkunni í Þingeyjarsýslum gamalkunnug og á sér langa sögu. Nú liggur hins vegar fyrir að ætla má að meiri líkur séu á því en nokkru sinni fyrr að af því verði og hefjist uppbygging með iðnaðarstarfsemi á svæðinu sem kennt er við Bakka og tilheyrandi virkjunarframkvæmdir verði það á háhitasvæðunum í Suður-Þingeyjarsýslu.

Nauðsynlegt er að leggja enn og aftur áherslu á að hér er um stofnkostnað að ræða, innviðafjárfestingu sem ríkið hefur jafnan tekið þátt í við sambærileg tilvik. Má þar nefna umtalsverðar vegaframkvæmdir sem tengdust uppbyggingu álversins á Reyðarfirði þar sem byggð var hjáleið fram hjá bænum um hafnarsvæðið á Reyðarfirði og vegur þaðan út að verksmiðjulóðinni. Sömuleiðis var byggður nýr vegur yfir Hólmaháls og umtalsverðar vegaframkvæmdir fóru einnig fram á Jökuldal með fjármögnun frá Landsvirkjun og endurgreiðslu frá ríkinu. En að sjálfsögðu verður ekki ráðist í þessar fjárfestingar fyrr en búið er að tryggja að allir nauðsynlegir samningar liggi fyrir og ljóst að af framkvæmdunum verði. Þannig er ekki verið að skuldbinda ríkissjóð eða sveitarfélagið Norðurþing til að ráðast í fjárfrekar fjárfestingar nema ljóst sé að þeirra verði þörf. Sömuleiðis er að sjálfsögðu samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA nauðsynlegt til að sá hluti málsins nái fram að ganga.

Að þessu sögðu, herra forseti, legg ég til að málunum báðum, eins og ég hafði reyndar áður mælt fyrir í hinu fyrra tilviki, verði vísað til hv. atvinnuveganefndar sem eftir atvikum á svo samstarf við aðrar þingnefndir um þá þætti málsins sem eðlilegt má telja að gangi til skoðunar þar. Auðvitað má færa fyrir því rök að vissir hlutar málsins tengist viðfangsefnum tveggja, jafnvel þriggja, annarra þingnefnda eins og ræðst af eðli máls.