143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

skýrsla Alþjóðamálastofnunar um ESB.

[15:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að segja að ég hef nú rétt lesið fyrirsagnirnar um þá skýrslu sem hér er getið um og ekki kynnt mér efni hennar enn, en ég tek eftir því að það eru nokkrar meginniðurstöður komnar í umræðuna, að það hafi verið ágætisgangur í viðræðunum. Gott og vel. Það gengur samt mun hægar en að var stefnt. Í öðru lagi segir víst einhvers staðar í skýrslunni að ósamstaða í ríkisstjórninni, ósamstaða um hvernig vinna ætti að framgangi mála í einstökum málaflokkum hafi valdið töfum, (ÁPÁ: Því er ekki til að dreifa nú.) (Gripið fram í: Nei.) sem er athyglisvert, ekki síst í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað að undanförnu um hvort það sé yfir höfuð mikilvægt að ríkur stuðningur sé í ríkisstjórn við málið eða ekki. Sumir vilja halda því fram að það skipti bara engu máli.

Varðandi sérlausnirnar grunar mig nú að þær séu óskaplega léttvægar og í engum mæli líkar því sem við höfum rætt um að þurfi að eiga sér stað á grundvelli þess sem meiri hluti utanríkismálanefndar komst að á sínum tíma og eru nefnilega varanlegar undanþágur frá sambandslögunum. Ég kannast ekki við að fengist hafi neinar varanlegar undanþágur frá sambandslöggjöfinni í viðræðunum fram til þessa. Það er grundvallarmunur á einhverjum aðlögunum, tímafrestum og slíkum hlutum og því sem ég nefni hér.

Varðandi efnahagslegu þættina sem ég nefndi kemst ég ekki hjá því að spyrja: Hvers vegna mælti hv. þingmaður ekki með því á sínum tíma að við mundum fara í fjöldauppsagnir í opinbera geiranum? Til þess að verja gengið. Hvers vegna mælti hann ekki fyrir því að við segðum upp nokkur þúsund íslenskum opinberum starfsmönnum? Til þess að verja gengið, vegna þess að hann segir að það sé miklu betra að leggja áherslu á fast gengi en vinnumarkaðinn.

Við létum gengið lækka vegna þess að það var óumflýjanlegt (Forseti hringir.) til þess að auka samkeppnishæfni íslensks efnahagslífs (Forseti hringir.) og þar með voru störf varin í opinbera geiranum. (Forseti hringir.) Ef hv. þingmaður hefði viljað fara hina leiðina þá vantar svar við þessari spurningu: Hvers vegna (Forseti hringir.) var ekki þúsundum opinberra starfsmanna sagt upp störfum?