145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

störf þingsins.

[10:46]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég ætla að hneykslast á framgöngu hæstv. forsætisráðherra í landspítalamálinu, ef ég má kalla það svo, um uppbyggingu Landspítalans. Stundum virðist eins og hæstv. forsætisráðherra átti sig ekki á því að enn hafa orð hans nokkra vigt og fólk tekur eitthvert mark á þeim. Það skiptir gífurlegu máli fyrir þau sem stjórna þessari mikilvægu stofnun okkar að þau séu alveg örugg með að áform um uppbyggingu Landspítalans muni standa. Það að byggja upp Landspítala – háskólasjúkrahús er ekki eitthvað sem maður gerir á einu ári, tveim eða þrem. Þetta er margra ára verkefni. Og nú skiptir máli þegar innviðirnir á Landspítalanum eru eins og raun ber vitni að það sé alveg öruggt að það á að halda áfram á þeirri braut sem Alþingi hefur ákveðið.

Þess vegna varð ég fyrir svolitlum vonbrigðum í gær þegar hæstv. fjármálaráðherra sagði að vissulega yrði haldið áfram en að hann væri alltaf til í að hlusta á góðar hugmyndir og sagði: Í millitíðinni höldum við okkar striki.

Það er ekki hægt að segja „í millitíðinni“ í þessu dæmi. Það á að vera alveg klárt að við munum halda okkar striki til að klára þá uppbyggingu sem fyrirhuguð er á Landspítalanum. Það er einn af þeim áhrifamiklu þáttum sem við getum gert til að endurreisa heilbrigðiskerfið. Ég vona að hæstv. fjármálaráðherra komi og staðfesti það að þetta „í millitíðinni“ var „slip of the tongue“, ef ég má komast þannig að orði, afsakið, virðulegi forseti.

(Forseti (EKG): Fótaskortur á tungunni.)


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna