145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

störf þingsins.

[10:53]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég fór í gær og skoðaði gögnin sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson fjallaði um áðan, leynigögnin svokölluðu á nefndasviði. Ég fann þar hvorki samsæri né landráð en er að vísu hvorki sérfræðingur í þeim efnum né í því efni sem finnst í gögnunum. Þó verð ég að segja að ég átta mig ekki heldur á því hvers vegna stór hluti gagnanna er leynilegur. Lítill hluti þeirra virðist innihalda upplýsingar á borð við nöfn og kennitölur. Mikið virðist vera af stöðluðum samningstexta á ensku lagamáli og enskuna skil ég vel en það er ekki nóg til að skilja þýðingu allra gagnanna. Mig langar mikið til að ræða þessi gögn við þá sérfræðinga sem ég hef aðgang að en þá þarf ég að geta borið þau undir þá með góðu móti og það get ég ekki sem stendur vegna þess að þau eru jú svo leynileg.

Eins og staðan er núna verða gögnin og staða þeirra í þinginu til þess eins að vekja tortryggni í ljósi misjafnlega ljósra fullyrðinga einstakra þingmanna um túlkun sína á þeim. Sem fyrr greinir þekki ég ekki nákvæmar ástæður þess að trúnaðar sé krafist um hvert skjal í þessum gögnum. Við þingmenn verðum að hafa skýr svör um það hvers vegna ekki má opinbera gögnin. Við þurfum að geta sammælst um að það séu lögmætar og málefnalegar ástæður fyrir því. Eins og fyrr greinir er mikið af þessum gögnum lagatexti sem ég hygg að ætti ekki að vera leynilegur nema hann sé þá þess eðlis að þar sé eitthvað til þess að ræða alvarlega og opinberlega.

Ég legg því til að kröfur hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur verði teknar alvarlega og að eins mikilli leynd verði svipt af þessum gögnum og frekast er unnt. Að því leyti sem það er ekki mögulegt þarf að vera mjög skýrt hvers vegna og það þarf að vera svo skýrt að við hv. þingmenn getum sammælst um það. (VigH: Takk fyrir stuðninginn.)


Efnisorð er vísa í ræðuna