145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

dómstólar.

615. mál
[11:20]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tveimur frumvörpum. Annars vegar frumvarpi til laga um dómstóla og hins vegar frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála.

Í frumvörpunum eru lagðar til verulegar umbætur í réttarkerfinu sem ætlað er að styrkja stoðir þess og réttaröryggi í landinu. Viðamestu breytingarnar í frumvarpi til laga um dómstóla felast í því að komið verði á fót nýju áfrýjunarstigi, millidómstigi, hér á landi þannig að dómstigin verða þrjú, héraðsdómstólar, Landsréttur og Hæstiréttur. Landsréttur verður nýr áfrýjunardómstóll og Hæstiréttur æðsti dómstóll landsins. Með því er horfið frá því fyrirkomulagi tveggja dómstiga sem við höfum búið við hér allt frá 16. febrúar 1920 þegar dómsvald hæstaréttar Danmerkur hér á landi var afnumið og Hæstiréttur Íslands stofnaður.

Tveggja dómstiga kerfið hefur að mörgu leyti þjónað okkur vel í gegnum tíðina. Það er bæði ódýrt og skilvirkt. Eins og ég kem nánar að hér á eftir er það hins vegar svo að álagið á dómskerfið hefur aukist gríðarlega síðustu áratugi og nú er svo komið að hætta er á að Hæstiréttur landsins geti ekki sinnt hlutverki sínu sem fordæmisgefandi dómstóll og ekki er unnt að tryggja réttláta málsmeðferð í samræmi við kröfur mannréttindasáttmála Evrópu.

Einnig eru gerðar tillögur um verulegar breytingar á stjórnsýslu dómstólanna með þeim hætti að komið verði á fót sérstakri stofnun á vegum dómstólanna, dómstólasýslunni, sem á að annast sameiginlega stjórnsýslu allra þriggja dómstiganna. Í gildandi kerfi er slík sameiginleg stjórnsýsla ekki fyrir hendi heldur fer dómstólaráð með stjórnsýslu héraðsdómstóla og Hæstiréttur þá stjórnsýslu sem honum tengist. Brýnt er að styrkja stjórnsýslu dómstólanna og á það enn frekar við með nýju dómstigi.

Í frumvarpi til laga um breytingar á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála eru nýjar málsmeðferðarreglur sem taka mið af stofnun millidómstigs. Þar er meðal annars fjallað um kæru- og áfrýjunarleiðir frá héraðsdómstólum til Landsréttar, meðferð mála fyrir Landsrétti og kæru- og áfrýjunarleiðir frá Landsrétti til Hæstaréttar og meðferð mála fyrir Hæstarétti. Í frumvarpinu er haft að leiðarljósi að einfalda og hraða málsmeðferð eins og kostur er. Ljóst er að heildarmálsmeðferðartími í þeim málum sem fara á öll þrjú dómstigin mun lengjast og endurmat á munnlegum vitnisburði fyrir áfrýjunarstigi getur þyngt málsmeðferðina. Við þessu er brugðist til dæmis með því að stytta áfrýjunarfresti í einkamálum og einfalda sönnunarfærslu fyrir Landsrétti.

Hæstv. forseti. Þessi frumvörp hafa átt nokkuð langan aðdraganda. Fyrir liggja vandaðar greiningar á núverandi fyrirkomulagi, kostum og göllum, og mat á nauðsynlegum úrbótum. Vinnuhópur innanríkisráðuneytisins um millidómstig skilaði skýrslu í júní 2011. Í skýrslunni eru bornir saman mikilvægir þættir í dómskerfum Norðurlanda, veikleikar kerfisins greindir og fjallað um kosti og galla ólíkra leiða til að bregðast við þeim. Vinnuhópurinn var sammála um að það væri æskilegt markmið að stofnað verði millidómstig sem tæki bæði til einkamála og sakamála. Nefnd um millidómstig sem innanríkisráðherra skipaði sumarið 2013 skilaði fyrstu drögum að frumvarpi um ný dómstólalög og um breytingar á einkamálalögum og sakamálalögum í mars 2015. Frumvarpsdrögin voru í framhaldinu kynnt á vef ráðuneytisins og unnið úr þeim athugasemdum sem bárust. Í þeirri vinnu var meðal annars leitað til rýnihóps sem í sátu fulltrúar Hæstaréttar Íslands, dómstólaráðs, Dómarafélags Íslands, Lögmannafélags Íslands og ríkissaksóknara. Þá var einnig leitað til réttarfarsnefndar. Að lokum var frumvarpið kynnt á vef ráðuneytisins auk þess sem það var sent fagfélögum. Í umsögnum sem bárust var almennt lýst ánægju með frumvarpið.

Ég mun nú fyrst víkja að helstu atriðum sem snúa að efni og áherslum frumvarpanna um millidómstigið. Markmið með því að koma á nýju dómstigi er að bæta dómskerfið, tryggja betur en nú vandaða og réttláta málsmeðferð fyrir dómstólum og að æðsti dómstóll landsins, Hæstiréttur, geti sinnt hlutverki sínu sem fordæmisgefandi dómstóll. Samhliða er leitast við að tryggja áfram skilvirka málsmeðferð. Dómsmál munu líkt og nú byrja fyrir héraðsdómstólum. Það er því áfram gert ráð fyrir að grunnur mála verði lagður fyrir héraðsdómi. Þaðan verður hægt að áfrýja málum til Landsréttar og gilda að flestu leyti sambærilegar reglur um áfrýjun þangað og nú gilda um áfrýjun til Hæstaréttar. Í undantekningartilvikum verður hægt að áfrýja dómum héraðsdóms til Hæstaréttar. Þessi leið til Hæstaréttar, svokölluð hjáleið, verður aðeins fær í einkamálum og að uppfylltum tiltölulega þröngum skilyrðum, meðal annars um að þörf sé á skjótri niðurstöðu í málum og ekki sé ágreiningur um mat á sönnunargildi munnlegs framburðar. Dómum héraðsdóms verður því að meginstefnu áfrýjað til Landsréttar sem verður nýr áfrýjunardómstóll á millidómstigi fyrir allt landið. Þar er lagt til að 15 dómarar starfi við Landsrétt og að þrír dómarar taki að jafnaði þátt í meðferð hvers máls. Fyrir Landsrétti verður unnt að hlýða á upptökur á munnlegum vitnisburði sem fram hefur farið fyrir héraðsdómi, leiða vitni fram að nýju og eftir atvikum ný vitni eftir því sem nauðsyn krefur. Það getur því farið fram milliliðalaust mat á munnlegri sönnunarfærslu á áfrýjunarstigi þegar þess er þörf, bæði í einkamálum og sakamálum. Þetta er grundvallaratriði og mikil réttarbót. Með þessari breytingu er komið til móts við alþjóðlegar kröfur en Mannréttindadómstóll Evrópu hefur talið að milliliðalaus sönnunarfærsla á áfrýjunarstigi sé liður í réttlátri málsmeðferð samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu, samanber einnig 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar.

Milliliðalaust mat á munnlegum vitnisburði á áfrýjunarstigi fer sjaldnast fram í gildandi kerfi. Hæstiréttur endurmetur nú sönnunargildi munnlegs framburðar í einkamálum án þess að munnleg sönnunarfærsla fari þar fram. Við meðferð sakamála getur Hæstiréttur látið fara fram munnlega sönnunarfærslu samkvæmt heimild í lögum um meðferð sakamála. Hann hefur hins vegar nær aldrei beitt þessari heimild. Mun meginskýringin vera það mikla álag sem er á réttinum og málshraðasjónarmið. Telji Hæstiréttur að mati á sönnun í sakamálum, til dæmis í kynferðisafbrotamáli, sé ábótavant eða það rangt svo einhverju skipti um úrslit máls ómerkir hann dóm héraðsdóms. Það þýðir að stefna verður málinu fyrir héraðsdóm á ný. Slíkt er bæði kostnaðarsamt og tímafrekt og svarar ekki kröfunni um milliliðalausa sönnunarfærslu. Þá felur það í sér verulegt álag fyrir aðila máls og brotaþola að þurfa að ganga í gegnum alla málsmeðferðina fyrir héraðsdómi að nýju. Það blasir satt að segja við að þessu verður að breyta. Meginrökin fyrir tveimur dómstigum hafa verið að slíkt kerfi sé skilvirkt. Það er að sjálfsögðu mikilvægt að tryggja eins og kostur er skilvirkni og í frumvörpunum er leitað leiða til að tryggja að málsmeðferðinni fyrir dómstólum verði hraðað eins og kostur er. Milliliðalaus sönnunarfærsla á áfrýjunarstigi þýðir ekki að það þurfi í öllum málum að endurtaka munnlega sönnunarfærslu sem fram hefur farið fyrir héraðsdómstólum. Heldur ekki að hlusta þurfi á upptökur af öllum munnlegum sönnunarfærslum. Sjónarmið um hraða málsmeðferð og tillitssemi við þá sem bera vitni kalla á að ekki verði gengið lengra en nauðsynlega er þörf á í þessum efnum.

Með nýju dómstigi verður einnig hægt að tryggja vandaðri málsmeðferð í málum þar sem reynir á sérfræðileg atriði. Í frumvarpinu er lagt til að Landsréttur hafi heimild líkt og héraðsdómur til að kalla til sérfróða meðdómsmenn, t.d. lækna. Landsréttur getur þannig lagt mat á þau atriði héraðsdóms sem þarf sérfræðiþekkingu til en slík atriði geta ráðið miklu um niðurstöður mála.

Að öðru leyti má segja að málsmeðferð fyrir Landsrétti verði svipuð málsmeðferð fyrir Hæstarétti eins og hún er nú. Gert er þó ráð fyrir að flestum dómsmálum ljúki fyrir Landsrétti. Hæstiréttur verður æðsta dómstigið í réttarkerfinu. Gert er ráð fyrir að dómurum við Hæstarétt fækki úr níu í sjö. Mælt er fyrir um að ekki skuli raska stöðu þeirra sem þegar hafa verið skipaðir eða settir í dómaraembætti. Ekki verður hins vegar skipað á ný í dómaraembætti fyrr en þörf krefur samkvæmt ákvæðum laganna um fjölda dómara. Almennt taki fimm dómarar þátt í meðferð hvers máls en í undantekningartilvikum geta sjö dómarar átt þar sæti. Með nýju dómstigi verður hlutverk Hæstaréttar afmarkaðra og álag á dómstólinn mun minna en nú er. Hann getur því betur sinnt hlutverki sínu sem fordæmisgefandi dómstóll.

Í frumvörpunum er á því byggt, eins og áður segir, að sem allra fæst mál komi til meðferðar á þremur dómstigum. Þangað megi aðeins áfrýja dómum eða kæra úrskurði að fengnu áfrýjunar- eða kæruleyfi. Leyfi Hæstaréttar til áfrýjunar á dómum byggist í grundvallaratriðum á mati á því hvort úrslit málsins hafi verulega almenna þýðingu eða varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni þess sem sækir um áfrýjunarleyfi. Heimildir til að kæra réttarfarságreining fyrir Landsrétti til Hæstaréttar verða þröngar. Ýmsar aðrar breytingar eru lagðar til í því augnamiði að bæta málsmeðferð og styrkja dómstólana og sjálfstæði þeirra. Fyrst má geta að lagt er til að heimild dómara til að gegna aukastörfum verði þrengd. Þannig verði dómurum að meginstefnu til óheimilt að taka að sér stjórnsýslustörf í þágu hins opinbera, svo sem setu í úrskurðarnefndum, stjórnum opinberra stofnana eða fastanefndum sem annast eða undirbúa lagabreytingar. Samkvæmt því yrði dómurum til dæmis ekki heimilt að sitja í réttarfarsnefnd. Dómurum yrði hins vegar áfram heimilt að taka þátt í tilfallandi sérfræðihópum á vegum hins opinbera, sinna fræðistörfum og kennslu, svo dæmi séu nefnd. Með þessum breytingum er leitast við að skerpa enn frekar á skilum milli dómsvalds annars vegar og framkvæmdar- og löggjafarvalds hins vegar og draga úr líkum á að dómarar sinni störfum eða ynnu af hendi verk sem síðar geta, beint eða óbeint, komið til kasta dómstóla.

Þá er lagt til að í lögum um dómstóla verði fjallað um fjárveitingar til dómstólanna en ákvæði af því tagi hefur ekki verið í lögum um dómstóla fram til þessa. Lagt er til dómstólasýslan leggi mat á og geri tillögur til ráðherra um nauðsynlegar fjárveitingar til stofnana dómskerfisins að fengnum tillögum einstakra dómstóla og tekur stofnunin við hlutverki dómstólaráðs og Hæstaréttar að þessu leyti. Gert er ráð fyrir að ráðherra geri fjárlaganefnd Alþingis grein fyrir því ef hann víkur frá tillögum stjórnar dómstólasýslunnar auk þess sem gera skal grein fyrir frávikum í frumvarpi til fjárlaga. Með þessu er stefnt að því að skerpa á sjálfstæði dómstólanna gagnvart framkvæmdarvaldinu við tillögugerðina.

Þá er lagt til að lögfest verði ákvæði sem tryggja að kynjahlutfall í nefnd um dómarastörf og dómnefnd um mat á hæfni umsækjenda um embætti dómara verði sem jafnast og samræmist jafnréttislöggjöf. Er tilnefningaraðilum gert að tilnefna bæði karl og konu. Með því á að eyða öllum vafa um þetta efni.

Í frumvarpinu eru einnig lagðar til nokkrar breytingar á setningu varadómara. Þar á meðal er lagt til að þeir skuli að meginstefnu koma úr hópi fyrrverandi dómara. Þeir hafa áður undirgengist hæfnismat og hafa til þess að bera mikilvæga reynslu. Með því er einnig komið til móts við sjónarmið um sjálfstæði dómara, enda hverfandi líkur á að fyrrverandi dómarar láti framtíðarstarfshorfur sínar innan dómskerfisins hafa áhrif á niðurstöður sínar. Að lokum má nefna að þetta fyrirkomulag kemur í veg fyrir að varadómarar öðlist forskot á aðra umsækjendur vegna reynslu sinnar.

Gert er ráð fyrir breyttu fyrirkomulagi við setningu í embætti dómara vegna leyfa dómara á öllum dómstigum. Þannig er lagt til að framvegis verði ekki sett í embætti dómara nema í undantekningartilvikum og þá fyrst og fremst þegar hætta er á að dómstóll verði óstarfhæfur. Taka tillögur frumvarpsins um fjölda dómara á hverju dómstigi mið af þessari reglu. Dómarar í héraðsdómi verði 42, í Landsrétti 15 og sjö við Hæstarétt. Setningar í embætti dómara eru að ýmsu leyti óheppilegar, meðal annars út frá sjónarmiðum um sjálfstæði dómara. Komi til þess að setja verði í embætti dómara er lagt til að það verði hlutverk nefndar um mat á hæfni dómara að gera tillögu um hverjir skuli settir í embætti dómara. Ef um er að ræða setningu til lengri tíma en sex mánaða er lagt til að auglýsa skuli embættið laust til setningar. Með þessum breytingum er leitast við að tryggja sem best að fagleg sjónarmið ráði vali á dómurum sem settir eru til starfa.

Þá er í frumvarpinu að finna heildstæð lagaákvæði um sérfróða meðdómsmenn, þar á meðal skipun þeirra, hæfi og kvaðningu, og er það nýmæli í íslenskum lögum. Með ákvæðunum er meðal annars komið til móts við athugasemdir ríkjahóps Evrópuráðsins um aðgerðir gegn spillingu við fyrirkomulag á vali sérfróðra meðdómsmanna á Íslandi.

Hæstv. forseti. Ég mun nú víkja að meginatriðum og áherslum er varða stjórnsýslu dómstólanna. Með því að færa sameiginlega stjórnsýslu dómstólanna undir eina sjálfstæða stofnun, dómstólasýsluna, er stefnt að því að bæta og efla stjórnsýslu þeirra og stuðla að samræmingu í framkvæmd mála er varða innri starfsemi allra dómstiganna þriggja. Verkefni dómstólasýslunnar verða fjölmörg og eru þau helst sem hér segir:

Dómstólasýslunni er ætlað að koma fram út á við og vera málsvari dómstólanna, bæði gagnvart stjórnvöldum og almenningi. Í því getur meðal annars falist að koma á framfæri við Alþingi eða ríkisstjórn hvers kyns ábendingum er varða starfsemi dómstólanna og svara fyrirspurnum fjölmiðla og almennings.

Lagt er til að dómstólasýslan annist skipulagningu símenntunar allra dómara og annarra starfsmanna dómstólanna eftir reglum sem stofnunin setur.

Þá er henni ætlað að annast yfirstjórn upplýsinga og tæknimála dómstólanna og safna saman og birta upplýsingar um fjölda og afgreiðslu mála við dómstóla og gefa út sameiginlega ársskýrslu um starfsemi sína og dómstólanna.

Einnig er ráðgert að dómstólasýslan setji reglur um tiltekin atriði fyrir Landsrétti og héraðsdómstóla, þar á meðal um málaskrár, þingbækur, hljóð- og myndupptöku í þingsölum og varðveislu málsskjala og upptaka. Er stofnuninni ætlað að stuðla að samræmdri framkvæmd í þessum efnum eftir því sem frekast er unnt.

Þá vil ég nefna að af hálfu umboðsmanns Alþingis hafa verið bornar fram ábendingar bæði til Alþingis og innanríkisráðherra aðlútandi stjórnsýslu dómstólanna. Annars vegar hefur umboðsmaður bent á að óvissa sé til staðar um hvort almenn stjórnsýsla dómstólanna falli undir starfssvið hans. Hins vegar hefur umboðsmaður talið nauðsynlegt að tekið sé til athugunar hvort rétt sé að setja þeirri stjórnsýslu dómstólanna sem ekki teljast til meðferðar einstakra dómsmála skýrari umgjörð með hliðsjón af málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar.

Í þeim frumvörpum sem hér eru lögð fram er ekki lagt til að umboðsmanni Alþingis verði falið eftirlit með almennri stjórnsýslu dómstólanna. Aftur á móti eru lagðar til ýmsar breytingar í því skyni að tryggja að stjórnsýsla dómstólanna sæti skýrum reglum og meðal annars lögbundið að um meðferð mála hjá nefnd um dómarastörf fari eftir ákvæðum stjórnsýslulaga. Þá er lagt til að ef dómari eða annar starfsmaður dómstóls telur forstöðumann dómstóls hafa gert á sinn hlut geti hann beint kvörtun vegna þess til dómstólasýslunnar. Slíkar kvartanir gætu til dæmis varðað ýmiss konar starfsmannamál eða sambærileg atriði þar sem forstöðumaður kemur fram sem stjórnandi. Enginn slíkur vettvangur er til staðar samkvæmt gildandi lögum. Þótt það sé ekki tekið fram er gengið út frá því að meðferð slíks máls taki mið af málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar. Þá er að sama skapi lagt til að tekið verði af skarið um að ráðning og starfslok starfsmanna dómstóla fari eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Af því leiðir meðal annars að störf við dómstólanna skulu að meginstefnu auglýst opinberlega, auk þess sem gæta þarf að ákvæðum þeirra laga við starfslok.

Hæstv. forseti. Almennt má segja að sátt ríki um stofnun nýs dómstigs. Á það hefur þó verið bent að fara megi ódýrari og skilvirkari leið til að tryggja milliliðalausa sönnunarfærslu en þá er lögð er til í þessu frumvarpi, svo sem með því að ekkert eða að minnsta kosti mun færri mál fari á fleiri en tvö dómstig og fækka með því fjölda dómara í millidómstigi. Einnig hefur verið á það bent að lögfesta megi munnlega sönnunarfærslu fyrir Hæstarétti með tilsvarandi fjölgun hæstaréttardómara sem og þá leið að koma á millidómstigi í áföngum, til dæmis með því að fyrst um sinn tæki það einungis til sakamála. Vandséð er að slíkar leiðir nái öllum þeim markmiðum sem að er stefnt með frumvörpunum og sérstaklega tryggja þær ekki að Hæstiréttur geti sinnt betur því hlutverki að vera fordæmisgefandi dómstóll sem er annað tveggja meginmarkmiða frumvarpanna. Slíkar leiðir eru í raun flóknar í útfærslu. Hlutverk hvers dómstigs verður óskýrara og álagið á æðsta dómstiginu verður ekki minna en nú. Einnig mælir það sérstaklega með því að millidómstigi verði komið á fót í einu skrefi að það flýtir verulega fyrir því að þær réttarbætur sem ég hef rakið komist í framkvæmd. Þá er hagkvæmara að hefja starfsemi Landsréttar í húsnæði og umhverfi sem miðast við framtíðarstarfsemi dómstólsins og kostnaður við upplýsingakerfi og innviði verði minni ef dómstóllinn verður settur á stofn í einu skrefi frekar en fleirum. Um þau rök að stofnun sérstaks millidómstigs muni leiða til of mikils kostnaðar vil ég einnig segja að auðvitað verður að hafa að leiðarljósi að stilla kostnaði hins opinbera í hóf og leita allra leiða til að spara. Það er hins vegar mín einlæga skoðun að réttarkerfið okkar, ein af allra mikilvægustu grunnstoðum samfélagsins, hefur verið fjársvelt svo ekki verði unað við það lengur. Gæði réttarkerfisins ráða því hvort við búum raunverulega í réttarríki. Við erum komin að hættumörkum og óháð stofnun nýs millidómstigs þyrfti að bæta í verulega. Í frumvörpunum er leitast við að fara bil beggja og stuðla eins og kostur er að skilvirkni og hagkvæmni.

Hæstv. forseti. Það eru síðan hugmyndir um hversu langt eigi að ganga í að breyta ýmsum atriðum í gildandi lögum samhliða upptöku millidómstigs. Um það geta verið ólík sjónarmið. Í þeim efnum má nefna sem dæmi að nefnd innanríkisráðherra um stofnun millidómstigs, sem skilaði ráðherra tillögum að frumvörpum í febrúar 2015, lagði til að gerðar yrðu breytingar á reglum um hvernig dómsatkvæði skuli samin í Hæstarétti. Lagt var til að sá dómari sem er frummælandi í máli semji atkvæði sitt fyrir dómi. Aðrir dómarar sem sitji í málinu skuli einnig í eigin nafni taka afstöðu til atkvæðis frummælanda eftir því sem tilefni er til. Í þessu fólst sú meginbreyting að dómendur skrifi hver sitt atkvæði en komi ekki að meginstefnu til fram sem ein heild. Gerðar voru allnokkrar athugasemdir við þessa tillögu í umsögnum sem bárust og meðal annars bent á að dómarar geti samkvæmt gildandi reglum skilað sératkvæði séu þeir ósammála niðurstöðu eða forsendum hennar. Eigi meginreglan að vera sú að allir dómarar skrifi sitt atkvæði geti forsendur dóma orðið óljósari og óskýrari og fordæmisgildi minna. Á þau sjónarmið var fallist og er því ekki lagt til að þessi leið verði farin, að sinni að minnsta kosti, enda tengist hún ekki stofnun millidómstigs.

Einnig hafa komið fram ólík sjónarmið um hversu margir dómarar starfi við Hæstarétt. Í tillögum nefndarinnar frá árinu 2015 var lagt til að þeir skuli vera sex. Þá hafa komið fram í umræðunni hugmyndir um að þeir skuli vera fimm og allir dæmi í öllum málum. Í því sambandi hefur verið bent á að með því megi koma í veg fyrir að niðurstaða ráðist af því hverjir sitji í dóminum hverju sinni. Í frumvarpinu er lagt til að dómarar í Hæstarétti verði sjö. Sú tillaga byggist annars vegar á því að rétt er talið að stíga varlega til jarðar við fækkun dómara áður en reynsla hefur fengist á málaþunga fyrir dóminum. Þá er eins og áður segir að því stefnt að koma nær alfarið í veg fyrir að setja þurfi dómara vegna leyfa eða forfalla af öðrum ástæðum. Þörfin á fjölgun dómara af þeim sökum er enn ríkari nú þegar réttur dómara til námsleyfa hefur verið aukinn með nýlegum úrskurði kjararáðs. Áætla má að hann leiði til þess að ávallt verði einn dómari við Hæstarétt í námsleyfi í þrjá til sex mánuði á hverju ári. Það er því óheppilegt að ætla að skera fjölda dómara við Hæstarétt niður í fimm. Það mundi annað tveggja þýða að nær ávallt væri einn dómari við dóminn settur tímabundið í embætti sem vekur áhyggjur um sjálfstæði dómenda í réttinum eða að færri en fimm dæmdu í málum sem er verulega vafasamt þegar um er að ræða æðsta dómstól landsins þar sem dómum er ætlað að hafa fordæmisgildi.

Að lokum má geta þess að í tillögum nefndar frá árinu 2015 var lagt til að gerðar yrðu verulegar breytingar á reglum um hvernig staðið sé að skipan dómara. Ég er þeirrar skoðunar að gildandi reglum þurfi að breyta og hef lýst þeirri skoðun minni opinberlega. Ég tel hins vegar betra að fá um það sjálfstæða umræðu, óháða þeim nauðsynlegu umbótum á réttarkerfinu sem millidómstigið hefur í för með sér. Ég hef því látið vinna sjálfstætt frumvarp með tillögum um breytingar á reglum um skipan dómara sem nú er í kynningu á vef ráðuneytisins og ég hvet alla til að kynna sér vel.

Fleiri frumvörp eru í farvatninu. Í fyrsta lagi er í undirbúningi í ráðuneytinu frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála þar sem brugðist er við dómi Hæstaréttar frá 25. febrúar síðastliðinn í máli nr. 628/2015, um endurupptökunefnd. Þá liggur fyrir að verði frumvörp þessi samþykkt þarf að gera breytingar á fjölmörgum lögum þar sem um millitilvísanir er að ræða. Þau skipta tugum. Einnig er ljóst að gera verður breytingar á lögum um lögmenn hvað málflutningsréttindi varðar og öflun þeirra vegna stofnunar millidómstigs.

Hæstv. forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginefni frumvarpanna, undirbúningi þeirra og meginsjónarmiðum sem þau hvíla á. Lagt er til að frumvörpin taki að meginstefnu til gildi 1. janúar 2018. Undirbúningur hefjist þó fyrr, þar á meðal skipan í embætti dómara við Landsrétt. Þannig er kveðið á um það í bráðabirgðaákvæði IV í frumvarpi til laga um dómstóla, að skipun dómara við Landsrétt skuli lokið eigi síðar en 1. júlí 2017 og að þeir skuli skipaðir frá 1. janúar 2018. Lagt er til að þegar ráðherra gerir tillögu um skipun í embætti dómara við Landsrétt í fyrsta sinn leggi hann tillögur sínar um hverja skipun fyrir Alþingi til samþykktar. Samþykki Alþingi ekki tillögur ráðherra um tiltekna skipun skal ráðherra leggja nýja tillögu fyrir Alþingi til samþykktar. Í ljósi þess að skipaðir verða 15 dómarar samtímis er eðlilegt að tryggja aðkomu fleiri en eins handhafa ríkisvalds í því.

Hæstv. forseti. Ég ítreka að hér er að mínu mati um að ræða verulegar umbætur á íslensku réttarkerfi sem fela í sér mikilvæg framfaraskref. Ég fer fram á að þau verði send til hæstv. allsherjar- og menntamálanefndar til þóknanlegrar meðferðar og afgreiðslu og 2. umr.