145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[16:16]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Vissulega ber að fagna því að hv. þingmaður, formaður allsherjar- og menntamálanefndar sem mun taka málið til umfjöllunar, er hér og því ber líka að fagna að hv. þm. Willum Þór Þórsson er hérna. Ég tiltek hann sérstaklega sem framsóknarmann sem nennir — nennir er reyndar dónalegt orð að nota, virðulegur forseti — sem tekur öllu heldur þá skyldu sína alvarlega að hlusta á þær umræður sem fara fram í þessum sal.

Maður á ekki að skamma þá fáu sem eru mættir í kirkju. Ég fell aðeins í þá gryfju vegna þess að mér finnst ekki boðlegt að hér séu ekki fleiri fulltrúar stjórnarflokkanna vegna þess að þetta er mjög umdeilt mál. Kannski eru þau að reyna að sýna okkur og málinu fyrirlitningu með því að mæta ekki hingað. (Forseti hringir.) Þá á ég vissulega ekki við þessa tvo ágætu þingmenn sem hér eru staddir, virðulegi forseti.