149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

raforkulög.

792. mál
[23:46]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ef hv. þingmaður er að spyrja um svokallaðan IceLink á þessum PCI-lista, eða með leyfi forseta, Project of Common Interest, á vegum Evrópusambandsins, þá hefur það verkefni verið á þeim lista frá árinu 2015 þegar formaður Miðflokksins, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, var forsætisráðherra. Sú umsókn hefur nú verið dregin til baka þannig að það verkefni mun einfaldlega ekki birtast á þeim lista þegar hann verður næst birtur í nóvember 2019.

Það hefur töluverð vinna átt sér stað um þetta mögulega verkefni, líka á meðal stjórnvalda, ekki eingöngu hjá Landsvirkjun. Það var einmitt hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sem átti fund með þáverandi forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, og því verkefni var komið af stað. Það hefur komið fram að fyrirvari hans hafi verið um að verð mætti ekki hækka til almennings. En ég spyr þá: Hvað með allt valdframsalið? Voru engir fyrirvarar af hálfu hv. þingmanns um það, sem er stærsta málið í dag? Var þetta bara um að verð til almennings mætti alls ekki hækka? Þriðji orkupakkinn lá algjörlega fyrir árið 2015 og 2016 og reyndar mörgum árum þar á undan.

Hversu miklum fjármunum Landsvirkjun hefur eytt í skoðun á þessu verkefni hef ég ekki yfirsýn yfir, en það er sjálfsagt að spyrja þau að því. Það sem ég veit er að þetta verkefni sem mögulegt tækifæri til að flytja út orku hefur styrkt samningsstöðu Landsvirkjunar, sem er í eigu okkar allra, þegar kemur að samningum við stóriðjuna. Við seljum jú langstærstan hluta framleiddrar raforku í landinu til fjögurra fyrirtækja. Það hefur verið ágætt í samningaviðræðum við þau að geta sagt: Hér er mögulega önnur leið einhvern tímann í framtíðinni til að selja þá orku.

Ég vildi bara koma því að að þegar spurt er um hversu miklum fjármunum Landsvirkjun hefur eytt í þessa skoðun (Forseti hringir.) þá hefur hún líka leitt af sér sterkari samningsstöðu þess fyrirtækis sem er í eigu okkar, óháð þeim fyrirtækjum sem eru viðskiptavinir þeirra.