150. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2020.

launahækkun þingmanna og ráðherra.

[15:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að leiðrétta hv. þingmann þegar hún segir að það standi til að framkvæma einhverja launahækkun. Það er ekki verið að taka neina ákvörðun um þessi mál, bara ekki yfir höfuð. Alþingi tók hins vegar ákvörðun fyrir bráðum ári síðan að fresta launahækkun sem átti að koma til framkvæmda um mitt síðasta sumar til áramóta. Í lögum stendur að laun þeirra sem hv. þingmaður vísar til hafi hækkað 1. janúar. Það stendur í lögum. Ég hef ekki verið að taka neina ákvörðun um þessi efni, ekki nokkra einustu, nema þá að ég lagði til við þingið fyrir nokkru að við myndum fresta hækkunum sem hefðu komið til framkvæmda í sumar um sex mánuði. Það er þá í annað skiptið sem sú tillaga kemur fram á einu ári, að við frestum launahækkunum til þingmanna sem hafa engar verið frá árinu 2016.

Ég vek athygli á því að við birtum á vef fjármálaráðuneytisins fyrir nokkrum dögum yfirlit yfir launaþróun þingmanna, ráðherra og æðstu embættismanna og settum í samhengi við launahækkanir annarra síðastliðinn rúman áratug. Það er alveg augljóst af þeim samanburði, sem er sá samanburður sem var lagður til grundvallar í samtali við vinnumarkaðinn á sínum tíma, að þingmenn og ráðherrar eru eftirbátar annarra þegar kemur að launahækkunum undanfarinn rúman áratug.

En það sem ég er orðinn leiður á að ræða þetta mál hér í þingsal. Að menn skuli ekki geta komið sér saman um það yfir höfuð að finna eitthvert fyrirkomulag sem lætur þessa hluti ganga sinn vanagang yfir árin. Við lögðum niður Kjaradóm. Við lögðum niður kjararáð. Það er stutt síðan við ákváðum að festa viðmið um þessi efni í lög. En það er ekki einu sinni búið að framkvæma eina einustu breytingu á lögunum síðan þetta var ákveðið, áður en (Forseti hringir.) menn í þingsal koma hingað upp og ætla að slá sig til riddara með því að taka málin upp að nýju.

Ég spyr bara: Hvernig í ósköpunum á yfir höfuð að vera hægt að finna eitthvert fyrirkomulag (Forseti hringir.) þegar okkur gengur svona illa með þriðja fyrirkomulagið á rúmum áratug?