150. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2020.

vextir og verðtrygging.

[15:29]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Jú, það hlaut að vera draumur að þetta væru 0% vextir. Þeir hafa nú komið fram erlendis. En verðbólguskotið sem ráðherra hefur ekki áhyggjur af; hvers vegna ekki að slá á ótta heimilanna og bara taka verðtrygginguna úr sambandi? Höfum vaðið fyrir neðan okkur og tökum hana úr sambandi þannig að það sé tryggt að hún fari ekki á fleygiferð. Við verðum að átta okkur á því að tekjur af erlendum ferðamönnum 2019 voru 470 milljarðar. Það gengur fljótt á gjaldeyrisforðann og gengið er í frjálsu falli, allt hækkar, vörur og allt saman og heimilin eru þegar farin að finna fyrir því, sérstaklega þau sem verst standa. Það má ekki bæta ofan á það að verðtryggð lán fari af stað. Ef þið hafið engar áhyggjur af þessu þá myndi það slá rosalega mikið á ótta fólks að taka verðtrygginguna úr sambandi, sjá til þess. Það ætti ekki að vera mikið mál úr því að enginn óttast neitt.