150. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2020.

aukin fjölbreytni atvinnulífsins.

[15:43]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Mig langar að víkja aðeins orðum að ferðaþjónustunni sem hefur orðið fyrir mestum búsifjum. Staða greinarinnar var að mörgu leyti orðin veik og það vekur upp spurningar um hversu gríðarlega skuldsett greinin var við upphaf þessara erfiðleika. Það sem mig langar þó að minnast á við hæstv. ráðherra er að núna getum við byrjað nánast frá grunni með ferðaþjónustu á Íslandi, kannski illu heilli — og þó.

Hvað er verið að gera til að móta nýja stefnu í ferðamálum Íslendinga? Hver er mörkunin á þeirri markaðsherferð sem á að fara í? Ætlum við að taka föstum tökum það sem við höfum talað um árum saman, gjaldtöku í greininni? Ég veit að það er ekki vinsælt að nefna það akkúrat núna en ég spyr um aðgangsstýringar og annað þess háttar. Ég held að við getum flest verið sammála um að vöxturinn hafi verið óheftur. Við misstum tök á honum en nú fáum við annað tækifæri og nú skulum við reyna að vanda okkur. Hvað er hæstv. ráðherra að hugsa (Forseti hringir.) í þessum efnum?