150. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2020.

aukin fjölbreytni atvinnulífsins.

[15:45]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Þetta eru góðar spurningar sem hv. þingmaður ber hér upp. Fyrst varðandi stefnuna erum við sem betur fer búin að gefa út stefnuramma, leiðarljós fyrir ferðaþjónustuna, til ársins 2030. Auðvitað var enginn með þessa mynd í huga þegar sú vinna var unnin en hún var einmitt unnin þannig að hún gæti lifað af hvað sem er, þannig að þrátt fyrir að við gætum þurft að breyta tölum, vegna þess að umsvifin verða allt önnur og minni næstu ár, eru leiðarljósin alveg skýr. Þegar við komumst í það að fara að byggja upp að nýju þá eigum við einmitt að halda okkur við þau leiðarljós sem við höfum samþykkt saman, stjórnvöld, greinin og sveitarstjórnarstigið.

Markaðsherferðin er að fara af stað. Við erum að klára að skipa í stýrihóp og verkefnishóp í því. Óvissan gerir það að verkum að við vitum ekkert hvenær við getum raunverulega farið af stað og sömuleiðis er Íslandsstofa búin að vinna vinnu sem segir okkur hver okkar helstu og verðmætustu markaðssvæði eru. En það getur vel verið að það taki stórkostlegum breytingum. Við getum ekki herjað á markaðssvæði þar sem allt er í mikilli óvissu og svæði sem kannski fara mjög illa út úr kórónuveirunni. (Forseti hringir.) Það getur vel verið að við munum þurfa að breyta því, við breytum því sem þarf að breyta. Að mínu viti skiptir öllu máli að halda okkur algerlega við (Forseti hringir.) þau leiðarljós sem við höfum þegar samþykkt vegna þess að þau eru vegvísir til framtíðar. En við vitum samt að við munum þurfa að fara (Forseti hringir.) í mikla hagræðingu og fjárhagslega endurskipulagningu í greininni.