150. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

722. mál
[16:11]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Það er nákvæmlega þetta, málið var unnið í flýti og lítið samráð haft. Samt sem áður er hægt að auðvelda ýmis atriði. Ég nefndi í fyrra andsvari að eins og þetta er lagt upp hérna er verið að segja að þær réttarheimildir sem eru til staðar tapist ekki, fólk tapi ekki réttindum sínum ef það er kröfuhafi. Það er ekkert í þessu frumvarpi um að það tapi ekki heimild til að framlengja frest o.s.frv. ef krafan beinist gegn er heimili. Það er það sem ég hef áhyggjur af. Þetta hef ég séð á þingi frá 2013. Þá hafði dómsmálaráðherra heimild til hefja málssókn fyrir hönd heimilanna. Ég ræddi þetta ítrekað við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, þáverandi hæstv. innanríkisráðherra, sem fór með dómsmál. Sú heimild var bara ekki notuð. Eignarréttur kröfuhafa, bankanna, var alltaf varinn og heimilin máttu bíða. Þess vegna hræða sporin.

Ég ætla aftur að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvort henni finnist ekki rétt að rafrænar lausnir nýtist líka að fullu fyrir heimilin, (Forseti hringir.) að ef það á að samþykkja rafrænar lausnir geti heimilin fengið að koma að því, að eignarrétturinn sé alltaf virtur, sama hvort um er að ræða fjármálastofnun eða heimili.