151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

utanríkis- og alþjóðamál.

765. mál
[16:46]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég er sammála hv. þingmanni um að það má gera betur þegar kemur að tvísköttunarsamningum. Þess vegna höfum við lagt áherslu á það og við gerðum það í kjölfar skýrslunnar. Á þessu ári kom í fyrsta skipti út skýrsla, Áfram gakk! eins og hv. þingmaður veit, þar sem teknir voru fyrir allir viðskiptasamningar Íslands og þar með talið tvísköttunarsamningarnir, sem er samvinnuverkefni ráðuneyta. En við höfum, ég og hæstv. fjármálaráðherra, lagt sérstaka vinnu í að sjá til þess að hraða þeim og gera betur í því vegna þess að við getum og eigum að gera betur. Þetta hefur ekki verið gert áður mér vitanlega, slíkar áætlanir og slíkur undirbúningur. Það er rakið í skýrslunni við hverja er verið að ræða. En það er rétt hjá hv. þingmanni að við eigum að gera betur og við ætlum að gera betur.