Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[11:48]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Já, rammaáætlunin er mjög mikilvægt stjórntæki og ég fagna því að fá að greiða atkvæði um hana í dag. En rétt eins og hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir sagði hafa tveir af þremur flokkum í ríkisstjórn Íslands þvælst fyrir því að þetta mikilvæga tæki hafi gengið til atkvæða í þingsal frá 2013. Hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra sagði okkur þurfa að leika þann biðleik að setja Kjalölduveitu og Héraðsvötn í Skagafirði í biðflokk. Nei, hæstv. ráðherra. Við þurfum ekki að leika þann biðleik. Við getum staðið í lappirnar gagnvart náttúru Íslands og framtíðarkynslóðum. Við getum ákveðið að standa með faglegum sjónarmiðum verkefnisstjórnarinnar sem sagði einmitt að þetta ætti ekki að vera í biðflokki heldur verndarflokki.

Að lokum vil ég spyrja: Hvar er hæstv. umhverfisráðherra?

(Forseti (BÁ): Hæstv. umhverfisráðherra er með fjarvist í dag.)