Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

grunnskólar.

579. mál
[12:39]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég tel tvímælalaust rétt skref að fara heildstætt yfir hvernig við ætlum að meta skólakerfið og þau tækifæri sem við viljum að börnin okkar standi frammi fyrir. Hluti af því er síðan hvernig hið samræmda námsmat eigi að fara fram og það þarf vissulega að fara yfir það. Það sem mig langar að gera hér er einfaldlega að vekja athygli á því jákvæða í tengslum við þetta mál, m.a. að tveir ungir nemendur komu og settu fram sjálfstæða umsögn um málið. Mér finnst það vita á gott að unga fólkið okkar sé með þá samfélagsvitund að taka þátt í því hvernig þeirra framtíð er mótuð. Þeir styðja málið, Daníel Þröstur Pálsson og Ríkharður Flóki Bjarkason, og ég ætla að gera það líka. Mér finnst þetta vera til vitnis um að það er fullt að gerast þarna úti, m.a. í kollinum á krökkunum okkar; nýtum þann kraft sem þau hafa og hlustum svolítið á þau.