Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022--2036.

563. mál
[16:28]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki kominn hingað upp til að segja neitt efnislegt heldur bara til að benda á það sem eru örlítil mistök í skjalavinnslu. Ég heyrði hv. þingmann segja „meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar“, þá kviknaði á einhverjum perum hjá mér og ég fór að skoða nefndarálitið. Ég lýsti mig nefnilega í tölvupósti líka fylgjandi meirihlutaáliti. Þar með held ég að það verði álit allrar nefndarinnar, enda er þetta bara fínt mál. Í þessum töluðu orðum er starfsfólk þingsins í einhverju óðagoti að reyna að koma til móts við það að prenta skjalið upp fyrir mig. Ég veit ekki hvort þau hafi nokkurn tímann gert það þetta seint í ferlinu. Kannski er það of seint af því að flutningsræðunni er lokið en sjáum hvað setur, ef það tekst þá tekst það, ef ekki þá er ég alla vega búin að lýsa hér þeirri fyrirætlan minni sem var sú að vera með á þessu áliti, með restinni af nefndinni.