Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

meðferð sakamála og fullnusta refsinga.

518. mál
[16:37]
Horfa

Frsm. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008.

Frumvarpið felur í sér annars vegar ítarlegar breytingar á lögum um meðferð sakamál og hins vegar breytingar á lögum um fullnustu refsinga, um miðlun upplýsinga til brotaþola. Frumvarpinu er ætlað að bæta réttarstöðu brotaþola, réttarstöðu fatlaðs fólks og réttarstöðu aðstandenda.

Nefndin fjallaði um málið, fékk á sinn fund gesti og bárust umsagnir. Greint er frá því í nefndaráliti sem liggur frammi.

Virðulegur forseti. Það er í rauninni þríþættur tilgangur með þessu frumvarpi. Í fyrsta lagi er leitast við að bæta réttarstöðu brotaþola við meðferð sakamála hjá lögreglu og fyrir dómstólum. Í því sambandi er m.a. lagt til að aðgangur réttargæslumanns að gögnum á rannsóknarstigi verði í grundvallaratriðum sá sami og aðgangur verjanda, að brotaþola verði heimilt að vera viðstaddur lokað þinghald eftir að hann hefur gefið skýrslu, að réttargæslumanni verði milliliðalaust heimilað að beina spurningum til skýrslugjafa fyrir dómi, að brotaþola verði í ríkara mæli skipaður réttargæslumaður við meðferð áfrýjaðra mála og að unnt verði við meðferð máls á áfrýjunarstigi að krefjast ómerkingar á þeim þætti áfrýjaðs dóms sem lýtur að frávísun bótakröfu brotaþola þegar ákærði hefur verið sýknaður og bótakröfu af þeim sökum vísað frá dómi.

Í öðru lagi eru lagðar til breytingar í því augnamiði að bæta réttarstöðu fatlaðs fólks við meðferð sakamála hjá lögreglu og fyrir dómstólum. Í þeim efnum er m.a. lagt til að dómari geti ákveðið í vissum tilvikum að skýrsla af fötluðum brotaþola eða vitni verði tekin í sérútbúnu húsnæði sem og að dómari geti kvatt kunnáttumann sér til aðstoðar við skýrslutöku af fötluðu vitni.

Loks er í þriðja lagi stefnt að því með frumvarpinu að bæta réttarstöðu aðstandenda látins einstaklings í þeim tilvikum þegar rannsókn lögreglu beinist að dánarorsök hans. Þannig verði aðstandanda heimilt að koma fram sem fyrirsvarsmaður hins látna undir rannsókn málsins hjá lögreglu og að í ákveðnum tilvikum verði unnt að tilnefna fyrirsvarsmanni réttargæslumann. ---- Nefndin hefur fjallað um þetta mál og kannski helst þau sjónarmið sem uppi hafa verið um að frumvarpið gangi mögulega ekki nógu langt. Meiri hlutinn telur þó þá leið sem farin er í frumvarpinu ákjósanlegt fyrsta skref og ekki tilefni að svo stöddu að ganga lengra eins og að veita brotaþola aðilastöðu eða aðilastöðu að hluta enda ekki ljóst að slíkt myndi bæta réttarstöðu brotaþola í reynd. Meiri hlutinn telur að þegar breytingar eru lagðar til á grónu regluverki þurfi að stíga varlega til jarðar og sýna aðgát svo unnt sé að tryggja að þær breytingar sem ætlað er að styrkja réttarstöðu brotaþola leiði ekki til þess í reynd að þær verði lakari, t.d. rýri trúverðugleika framburðar hans og auki um leið líkur á því að sekur maður komist hjá ábyrgð. Meiri hlutinn telur þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu afar mikilvægar og tímabærar og til þess fallnar að bæta réttarstöðu brotaþola til muna.

Þá fjallaði nefndin um réttarstöðu fatlaðs fólks í tengslum við fyrirkomulag skýrslutöku. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að dómari geti ákveðið að skýrsla skuli tekin af brotaþola eða vitni með geðræna eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun, í sérútbúnu húsnæði. Meiri hlutinn áréttar að um er að ræða undantekningarheimild frá þeirri meginreglu að dómþing skulu haldin á föstum þingstöðum. Meiri hlutinn telur ekki rétt að gera það að skyldu að skýrslutaka fari fram í sérútbúnu húsnæði enda ekki ljóst að það þjóni hagsmunum hlutaðeigandi í öllum tilvikum og telur rétt að eftirláta dómara það mat í stað þess að löggjafinn setji fortakslausa reglu án svigrúms til mats. Meiri hlutinn áréttar þó að við mat dómara hverju sinni, um hvort skýrslutaka eigi að fara fram í sérútbúnu húsnæði, hafi dómari virkt samráð við hlutaðeigandi og þá sem gæta hagsmuna hans og meti hverju sinni hvort húsnæðið taki mið af þörfum hans. Meiri hlutinn beinir því til ráðherra að taka til sérstakrar skoðunar hvaða aðstaða sé heppilegust þegar fullorðið fatlað fólk á í hlut.

Meiri hlutinn telur þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu afar mikilvægar og tímabærar og til þess fallnar að bæta réttarstöðu fatlaðs fólks til muna.

Nefndin fjallaði að auki um réttarstöðu aðstandenda. Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi þess að aðstandendur fái aukin réttindi og vísar til þess að á grundvelli gildandi laga öðlast aðstandendur ekki formlega stöðu af neinu tagi gagnvart lögreglu og hafa að sama skapi ekki mörg úrræði til að fylgjast með framgangi lögreglurannsóknar. Meiri hlutinn telur því afar mikilvægt að bætt sé úr þessu enda hafi eftirlifandi aðstandendur hagsmuni af því að fá upplýsingar um framvindu rannsóknar. Meiri hlutinn telur þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu, um að aðstandandi geti komið fram sem fyrirsvarsmaður látins einstaklings gagnvart lögreglu og þá breytingu að heimilt verði að tilnefna fyrirsvarsmanni látins einstaklings réttargæslumann ef hann hefur að mati lögreglu þörf fyrir slíka aðstoð meðan á rannsókn málsins stendur, afar mikilvæga réttarbót fyrir aðstandendur. Meiri hlutinn beinir því til ráðherra að fylgjast vel með því að framangreindar breytingar nái markmiði sínu um að bæta réttarstöðu aðstandenda.

Lagðar eru til minni háttar lagatæknilegar breytingar í nefndarálitinu sem við teljum að þarfnist ekki sérstakrar umfjöllunar.

Að framansögðu virtu leggur meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar til að frumvarpið verði samþykkt með minni háttar breytingum.

Undir álit meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Birgir Þórarinsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Hilda Jana Gísladóttir og Kári Gautason. Ég tel að hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir sé jafnframt samþykk áliti þessu samkvæmt upplýsingum sem ég fékk áðan en hún gat því miður ekki verið viðstödd þegar málið var tekið út úr nefndinni.

Ég held að hér séum við með virkilega gott mál í höndunum. Það er reyndar svo að mál þetta var lagt fram 29. mars sl., en því miður náðist ekki að mæla fyrir málinu fyrr en 23. maí sem þýðir að málið hefur verið í stutta stund hjá allsherjar- og menntamálanefnd. Ég leit því þannig á þegar ég tók við málinu fyrst að því miður yrði líklega þetta góða mál ekki að lögum hér í vor en ég er einstaklega þakklát hv. allsherjar- og menntamálanefnd sem var tilbúin að leggja þá vinnu á sig að við gætum afgreitt þetta mál. Þannig tókum við á móti gestum þó að þeir hefðu örugglega mátt vera fleiri og fórum vel og vandlega yfir málið. Þetta mál er ekki glænýtt. Það var líka lagt fram líka á síðasta þingi en náði því miður ekki að verða að lögum þá, en það hefur tekið breytingum í samræmi við þær umsagnir sem bárust. Ég hef því ofboðslega góða tilfinningu fyrir því, virðulegur forseti, að hér séum við að stíga mikilvæg skref í því að bæta réttarstöðu brotaþola og ég vona svo innilega að við sameinumst um að gera þetta að lögum hér í nótt.