Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

tollalög.

9. mál
[18:17]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna þeirri samstöðu sem hefur náðst um þetta mál og ég vil þakka hv. formanni efnahags- og viðskiptanefndar fyrir sína góðu framsögu. Frumvarpið felur í sér tímabundna niðurfellingu tolla af vörum sem eru fluttar til Íslands og að öllu leyti upprunnar í Úkraínu. Í 1. gr. frumvarpsins segir að við ákvörðun um uppruna vöru skuli farið eftir ákvæðum fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Úkraínu sem tók gildi 1. júní 2012. Í þeim samningi er kveðið á um að vörur þurfi, með ákveðnum undantekningum, að hafa verið fluttar inn með beinum flutningi. Eins og við vitum fara langflestar þær vörur, ef ekki allar, sem eru fluttar inn til Íslands frá Úkraínu í gegnum nágrannaríki Íslands. Þetta er eitthvað sem Samtök verslunar og þjónustu benda á, að umfang vöruinnflutnings til Íslands sé að jafnaði svo takmarkað að beinn innflutningur komi sjaldnast til álita. Algengast er að vörurnar séu fluttar inn t.d. frá Hollandi, Bretlandi, Frakklandi og Eystrasaltsríkjunum, þannig að það er í rauninni kannski með öllu óljóst hvort þegar á hólminn er komið muni felast einhver raunveruleg tollfríðindi í þessu frumvarpi. Þetta er kannski eitthvað sem okkur er að verða betur og betur ljóst í nefndinni.

Þetta er frumvarp sem kom seint inn og svoleiðis þannig að það er alveg hugsanlegt að það sé pínulítið villandi í greinargerð þegar talað er um að hér sé Ísland að sýna stuðning við Úkraínu í verki og greiða fyrir viðskiptum. Í rauninni hefur kannski ekki farið fram nein bein greining á því hvort þetta séu raunverulega einhver viðskipti sem við erum að greiða fyrir með þessum tilteknu aðgerðum. En það breytir því ekki að allar aðgerðir í þessa veru eru mikilvægar. Við þurfum þá bara að halda áfram og þetta verður þá í versta falli einungis táknrænn stuðningur, í besta falli eitthvað meira. Það kom umsögn frá Bændasamtökum Íslands sem ég ætla ekki að hafa nein orð um hér en ég ítreka bara að ég er ánægður með þá vinnu sem hefur átt sér stað með þetta frumvarp núna á þessum skamma tíma og þá viðleitni sem hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar hefur sýnt og ég vona að við getum haldið áfram að sýna svona samstöðu í málum eins og þessum.