Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

eignarráð og nýting fasteigna.

416. mál
[19:11]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf):

Virðulegur forseti. Ég ætla að flytja hér ágrip úr nefndaráliti hv. þm. Eyjólfs Ármannssonar í þessu máli sem fjallar um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna (óskipt sameign, landamerki og fleira), frá minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.

Verði frumvarp þetta að lögum er um slys í löggjafarstarfi að ræða. Minni hlutinn vill byrja á því að vísa til bókunar undirritaðs um málið á fundi allsherjar- og menntamálanefndar 26. apríl 2022, þar sem kemur m.a. fram að um er að ræða breytingar á mikilvægum lagabálkum, samanber fundargerð. Heiti frumvarpsins nær ekki til mikilvægustu ákvæði þess, 11. gr., sem lýtur að fjárfestingu erlendra aðila, þar sem reynt er að koma í veg fyrir sniðgöngu erlendra aðila með staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu við kaup á jörðum og fasteignum hér á landi. Heiti frumvarpsins er sagt „varða eignarráð og nýtingu fasteigna (óskipt sameign, landamerki o.fl.)“. Ekki er minnst einu orði á jarðakaup erlendra aðila í heiti frumvarpsins en gera má ráð fyrir að þetta grundvallarmál falli undir „o.fl.“ í heiti frumvarpsins. Með frumvarpinu er verið að tryggja ríkinu forkaupsrétt á jörðum, með breytingu á lögum um menningarminjar, nr. 80/2012. Einnig er verið að gera breytingar á lögum um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001, sem eru grundvöllur skattheimtu í landinu. Verið er að setja meira en 100 ára gömul lög um landamerki frá árinu 1919 inn í lög um fasteignamat, sem eru grundvöllur skattheimtu í landinu, eins og áður sagði. Önnur ákvæði kveða á um kvaðir á landeigendur.

Ljóst er að við samningu frumvarpsins hefur friðhelgi eignarréttar landeigenda, sem varinn er í 72. gr. stjórnarskrárinnar, mætt afgangi og gott ef ekki hunsaður. Umfjöllun frumvarpsins um samspil þess og eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar er ótrúlega rýr.

Landamerkjalög frá landnámi til ársins 1919. Frá landnámi hafa lög um landmerki og afmörkun lands verið ein af mikilvægustu lögum landsins. Ætíð hafa lögin gengið út frá því að landeigendur marki land sitt gagnvart hver öðrum. Samkvæmt lögum um skráningu og mat fasteigna fer Þjóðskrá Íslands með yfirstjórn fasteignaskráningar. Hér er því verið að gera grundvallarbreytingu á stöðu lagareglna um landamerki í landinu.

Á fyrstu árum hins endurreista Alþingis – stofnað með konungstilskipun 1843 og kom fyrst saman 1845 – komu fram bænaskrár frá ýmsum héruðum til hins ráðgefandi Alþingis um að samdar yrðu glöggar landamerkjalýsingar jarða. Málið kom fyrst fyrir Alþingi 1847 en því var frestað. Árið 1849 var stjórnin beðin að leggja fram frumvarp en því var ekki sinnt. Málið lá í þagnargildi 28 ár, eða til 1877 er frumvarp til laga um landamerki og gjörðir í landaþrætumálum kom fyrir Alþingi. Þá var kosin nefnd um málið sem samdi nýtt frumvarp, en stjórnarskráin 1874 hafði þá veitt Alþingi takmarkað löggjafarvald með synjunarvaldi konungs sem hann beitti nokkrum sinnum. Málið kom aftur fyrir Alþingi 1879 en varð ekki útrætt vegna tímaskorts. Árið 1881 tók Alþingi frumvarpið fyrir og samþykkti það árið eftir sem lög eftir áratuga umfjöllun. Með landamerkjalögum 1882 er, líkt og áður sagði, fyrst berum orðum lögskipað að landeigendur skuli gera merki um lönd sín og halda þeim merkjum við, og að gerð skuli landamerkjaskrá fyrir hverja jörð sem afhent er sýslumanni. Með lögunum var veittur 5 ára frestur til að lýsa landamerkjum. Fresturinn var lengdur um 2 ár með lagabreytingu 1887.

Ljóst er að setning landamerkjalaga árið 1882 var mikilvægur áfangi á vegferð Íslendinga til sjálfstæðis árið 1918. Fyrir þjóð sem var að vakna til sjálfstæðis var skýr afmörkun eignarhalds á landi mikilvæg fyrir landnýtingu og efnahag, enda eignarrétturinn undirstaða atvinnufrelsis og drifkraftur framtakssemi og velmegunar. Eignarréttur á landi er grundvallaratriði í inntaki mannréttindaverndar í landinu og mun vera um ókomna tíð.

Í ljósi þessa er óskiljanlegt að verið sé að fella úr gildi 100 ára gömul sérlög um landamerki með því að setja lagaákvæði um landamerki inn í lög um fasteignamat. Þau lög eru grundvöllur skattheimtu í landinu og kveða á um mat fasteigna í þeim tilgangi. Lög um landamerki o.fl. frá árinu 1919 þarfnast endurskoðunar en það er sérverkefni og ber að gera með setningu nýrra laga um landamerki, ekki sem kafla í lögum um fasteignamat. Landeigendur hafa frá landnámi afmarkað land sitt sín á milli gagnvart aðliggjandi jörðum en ekki gagnvart stjórnvöldum og þá hvorki vegna skattheimtu né annarrar hagsmuna stjórnvalda.

Friðhelgi eignarréttarins er tryggt í 72. gr. stjórnarskrárinnar. Frumvarpið skyldar alla landeigendur, séu þeir þrír eða fleiri, til að tilnefna fyrirsvarsmann. Slík skylda gengur lengra en nauðsyn krefur og gengur því gegn friðhelgi eignarréttar. Sameigendur jarða geta stofnað félag um sameign sína, heimildarákvæði því óþarft. Hvaða ákvarðanir teljast ekki venjulegar en hvorki taldar óvenjulegar eða meiri háttar verður ekki vitað, sbr. 3. mgr. 7. gr. c.

Verði frumvarpið að lögum falla úr gildi lög um landamerki o.fl. frá 1919. Í staðinn kemur kafli um merki fasteigna í lögum um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001. Þjóðskrá Íslands fer samkvæmt þeim lögum með yfirstjórn fasteignaskráningar. Landeigendur hafa frá upphafi afmarkað land sitt sín á milli gagnvart aðliggjandi jörðum en ekki gagnvart stjórnvöldum. Ekki er minnst á glögg merki milli jarða af náttúrunnar völdum sem hefur afmarkað jarðir í landinu frá landnámi og án þeirra er merkjaskylda, sbr. 1. gr. laga nr. 41/1919. Sérlög um eignarhald á landi eru mikilvæg og það eru mikil réttarspjöll ef þau verða felld inn sem kafli í lögum um fasteignamat, sem eru grundvöllur skattheimtu.

Þrátt fyrir hina ýmsu vankanta á umræddu frumvarpi eru í því ákvæði sem hafa að geyma lagaúrbætur til hins betra. Þar á meðal er c-liður 11. gr. og því eru það mikil vonbrigði að mati minni hlutans að til standi að fella út þá reglu en á sama tíma halda til streitu þeim ákvæðum frumvarpsins sem kollvarpa aldalangri lagahefð.

Undir þetta skrifar hv. þm. Eyjólfur Ármannsson.