Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[11:43]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F):

Virðulegi forseti. Átök eru hluti af lýðræðinu. Hér í þingsal er tekist á um málefni sem varða þjóðarhag, stór sem smá. Síðustu mánuði og ár hefur verið mikil umræða um útlendingamál, bæði í þinginu sem og í samfélaginu öllu. Það er eðlilegt og mikilvægt að um þessi mál sé mikil umræða. Það er hins vegar skylda okkar þingmanna að tala af yfirvegun og virðingu um þennan viðkvæma málaflokk. Það er skylda okkar að sýna málaflokknum virðingu. Það er skylda okkar að ræða þessi mál af yfirvegun og gera okkar allra besta til að koma í veg fyrir skautun í samfélaginu.

Það er mikilvægt að kjörnir fulltrúar almennings vandi til verka, ekki síst þegar þeir ákveða þá umgjörð sem sett er um málefni innflytjenda, aðlögun þeirra að íslensku samfélagi og aðlögun íslensks samfélags að nýjum veruleika. Okkur sem sitjum hér á Alþingi hefur verið falið það hlutverk að gæta almannahagsmuna í þágu landsmanna. Þá ábyrgð ber okkur að taka alvarlega. Við megum ekki láta sundurlyndi og togstreitu koma í veg fyrir að við sinnum af ábyrgð jafn mikilvægum málaflokki og útlendingamál eru, í þjóðfélagi sem telur um 370.000 manns þar sem innflytjendur nálgast það að vera 20% íbúa.

Við þurfum að tryggja að þær stofnanir sem sinna þessum málaflokki séu í stakk búnar til að gera það og við þurfum að gæta að því að lögin sem stofnunum er ætlað að framfylgja séu sanngjörn og í samræmi við vilja landsmanna. Við þurfum einnig að tryggja að lög séu skýr hvað varðar skyldu stofnana ríkisins, svo ekki geti leikið vafi á því hvert hlutverk þeirra er. Það er á okkar ábyrgð að gera þær lagabætur sem nauðsynlegar eru til þess að samfélagið og stofnanir þess þekki réttindi sín og skyldur og geti í sífellu lagað sig að því hvernig samfélagið þróast.

Frú forseti. Það er ekkert nýtt að togstreita myndist milli hinna þriggja greina ríkisvaldsins. Það má reyndar segja að sú togstreita sé nauðsynleg til að koma í veg fyrir of mikla samþjöppun valds. Sama má segja um togstreitu milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Hvort tveggja er hluti þess gangverks sem lýðræðið er. En í þessum efnum, eins og öðrum, verða menn að gæta hófs. Ég bind vonir við að ráðherrar jafnt sem þingmenn, hvar í flokki sem þeir standa, sjái ábyrgð sína hvað þetta varðar og rísi undir henni.